Innlent

Brýn þörf á nýrnalæknum á LSH

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Tvö af fimm stöðugildum sérfræðinga í nýrnateymi Landspítalans eru nú ómönnuð. Yfirlæknir nýrnalækninga segir þörf á endurskipulagningu á grunnþjónustu Landspítalans til að laða að unglækna. Hann treystir nýjum forstjóra spítalans til að stappa stálinu í starfsfólk hans.

Lyflækningasvið er stærsta svið Landspítalans og með fjölbreytta starfsemi sem tekur til margra af algengustu sjúkdómum landsmanna. Með hækkandi aldri hefur aukin þungi færst í starfsemi sviðsins, á sama tíma og starfsmönnum. Nýrnalæknar hafa ekki farið varhuga af þessari þróun.

Nýrnateymi Landspítalans gegnir miðlægu hlutverki í lyflækningum og sér um lífsnauðsynlega meðferð á seinni stigum veikinda. Fimm sérfræðingar eiga að skipta þetta teymi en nokkuð hefur kvarnast úr þessum hópi undanfarið. Nú eru þrír sérfræðingar eftir í teyminu og því mæðir mikið á þeim sem eftir eru.

„Sem stendur erum við að sinna sömu þjónustu og áður,“ segir Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga. „En auðvitað hefur maður af því hvernig það mun ganga.“

Mannekla meðal sérfræðinga er verulegt vandamál innan spítalans enda eru önnur og ekki síður mikilvæg læknateymi sem eiga nú erfitt með að fylla sín stöðugildi.

Runólfur er sannfærður um að hægt sé að ráðast í endurskipulagningu á grunnþjónustu spítalans. Þetta sé sá grunvöllur sem þurfi til að vekja áhuga unglækna á að vinna við spítalann og gera hann samkeppnishæfan.

„Gríðarlega mannekla í röðum ungra lækna hefur mikil áhrif á okkar störf. Ég held að það sé algjört grundvallar atriði að reyna að koma framhaldsmenntun lækna í fullnægjandi horf á ný. Þannig að ungir læknar sæki hingað í störf.“

Runólfur ítrekar að sóknarfæri felist í endurskipulagningu á starfsemi spítalans, með því að þétta starfsemi hans og straumlínulaga fyrstu skref í meðferð sjúklinga, t.d. í gegnum eflt hlutverk Heilsugæslunnar.

Það sé verkefni nýs forstjóra, Páls Matthíassonar, að virkja þessa möguleika, þó svo að erfiðleikarnir varðandi fjármagn fari síst minnkandi.

„Ef að fjárframlög til stofnunarinnar munu ekki aukast umtalsvert þá verður þetta augljóslega mjög erfiður og þungur róður. Ég treysti Páli vel til að reyna að ná mannskapnum til að takast á við þetta erfiða verkefni og finna lausnir,“ segir Runólfur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×