Innlent

"Grafalvarlegt mál“

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Landlæknir segir það nauðsynlegt að greina þurfi betur hvaða læknisþjónustu einstaklingar í lágtekjuhópi neita sér um vegna þess að þeir hafa ekki efni á henni. 

Prófessorinn Stefán Ólafsson birti í dag og í gær færslur á bloggi sínu, en í þeim kemur fram að tæplega helmingi fleiri í lágtekjuhópi þurftu að neita sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar árið 2011 en árið 2009.

Fyrir fjórum árum var Ísland í áttunda efsta sæti á lista OECD, en það ár þurftu 3,7% lágtekjufólks að neita sér um læknisþjónustu þar sem það átti ekki pening fyrir henni. Árið 2011 vorum við ofar á lista Hagstofu Evrópusambandsins, eða í 6. efsta sæti og það ár þurftu tæp 7% lágtekjufólks að neita sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar. Það vekur athygli að Ísland er þarna við hlið Grikklands og Ítalíu, sem bæði fóru illa út úr efnahagshruninu. Þau lönd sem við berum okkur gjarnan saman við, eins og Svíþjóð og Danmörk, eru með um og undir 1% í þessum efnum.

Geir Gunnlaugsson landlæknir segir þetta vera áhyggjuefni. „Að sjálfsögðu er það grafalvarlegt mál af því að það er eitt af grundvallaratriðum í okkar heilbrigðisþjónustu að allir eigi að hafa jafnan aðgang að þjónustunni,“ segir hann.

Hann segir tölur liðinna ára benda til þess að það sé ákveðinn ójöfnuður hvað varðar aðgengi að læknisþjónustu og þá sérstaklega hjá ákveðnum efnaminni þjóðfélagshópum.

Geir er á því að það þurfi að skoða hvers vegna Ísland er mun neðar en önnur Norðurlöndin í þessum efnum. „Og reyna að greina betur hvaða þjónusta það er sem einstaklingarnir eru að neita sér um vegna fjárhags,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×