Innlent

Vantraust í garð stjórnenda Landspítalans

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Mikið vantraust ríkir meðal sérfræðilækna í garð stjórnenda Landspítalans og eru þeir orðnir langþreyttir eftir að ástandið batni. Heilbrigðisráðherra segir að það sé skilningur innan ríkisstjórnarinnar á mikilvægi aukinna fjárveitinga fyrir spítalann. Hvort það verður gert kemur í ljós við framlagningu fjárlagafrumvarpsins.

Sérfræðilæknar á lyflækningasviði Landspítalans sem Stöð 2 hefur rætt við segja að ríki lengur traust í garð stjórnenda spítalans vegna langvarandi óánægju sem hafi fengið að gerjast innan sviðsins. Læknarnir segja að vandinn hafi fengið að grassera of lengi.

„Traust til breytinga ofan frá er ekki lengur ríkjandi meðal okkar,“ segir Helga Ágústa Sigurjónsdóttir lyf-og innkirtlalæknir og sérfræðingur á Landspítalanum.

Hópur sérfræðilækna skrifaði grein um ástandið á lyflækningasviði í Fréttablaðið í dag þar sem fram kemur að vandinn á sviðinu geti hæglega valdið óbætanlegu tjóni ef ekki verður „tafarlaust brugðist við með viðeigandi aðgerðum.“

Sérfræðilæknar sem Stöð 2 hefur rætt við segja að síðustu mánuðir hafi verið illa nýttir til að laga ástandið.

„Það má til sanns vegar færa að einhverju leyti. Það var að hluta til vegna upplýsingaskorts. Hluta til vegna þess að menn vissu ekki hver staðan var. Við verðum að læra af því og bregðast við því í framtíðinni, en ég held að það sé alveg rétt að sumarið var ekki nógu vel nýtt,“ segir Björn Zoëga forstjóri Landspítalans.

Er ykkur stjórnendum spítalans stætt á að vera áfram ef það ríkir fullkomið vantraust sérfræðilækna í garð ykkar? „Ef lausnin á vandanum væri fólgin í því að einhverjir myndu hætta, einhverjir tveir eða þrír eða fjórir þá væri það auðvitað langeinfaldast og það væri löngu búið að gera það. Þetta er bara miklu miklu flóknara en það að hægt sé að persónugera þetta,“ segir Björn.

Ekki liggur fyrir hvort spítalinn fái aukin fjárframlög í fjárlagafrumvarpinu í október. Björn segir að spítalinn þurfi að fá að lágmarki einum milljarði króna meira í fjárlögum þessa árs en í síðustu fjárlögum. „Það er algjört lágmark,“ segir hann.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að ríkisstjórnin sé meðvituð um mikilvægi aukinna fjárveitinga og fjárhagsvandi spítalans hafi margoft verið ræddur á ríkisstjórnarfundum. „Við erum mjög einhuga í ríkisstjórninni að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna,“ segir Kristján Þór en hvort fjárveiting til Landspítlans verður aukin kemur í ljós við framlagningu fjárlagafrumvarpsins.


Tengdar fréttir

Landspítali í bráðri hættu

Landspítalinn er sjúkrahús allra landsmanna og um leið mikilvægasta kennslustofnun á sviði heilbrigðismála í landinu. Það kemur ekki til af góðu að Landspítalinn hefur verið mikið til umræðu síðustu vikurnar, þar sem ófremdarástand hefur ítrekað skapast.

Verðum að loka Hörpu - ef það er það sem þarf

Kári Stefánsson, læknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir heilbrigðiskerfið hafa verið holað að innan og hann þekki dæmi um ótímabæran dauða sjúklinga vegna þessa.

Landspítalinn kominn í þrot

Læknar á Landsspítalanum segja spítalann kominn í þrot og grípa þurfi til aðgerða nú þegar til að styrkja starfsemi hans. Skipulag spítalans bitni á sjúklingum og starfsfólki.

"Vítahringur manneklu, álags og óánægju“

Formaður Félags íslenskra lyflækna og yfirlæknir nýrnasjúkdóma segir að meiriháttar átak þurfi til að snúa við vanda lyflækningasviðs Landspítalans. Þetta snúist ekki lengur bara um peninga heldur langvinnan vanda inni á spítalanum og neikvætt andrúmsloft sem þar hafi fengið að gerjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×