Innlent

Mál svikahrapps tekið fyrir: Bótakröfur nema tæplega 41 milljón króna

Hrund Þórsdóttir skrifar
Sigurður mætti ekki þegar mál hans var tekið fyrir í morgun.
Sigurður mætti ekki þegar mál hans var tekið fyrir í morgun.
Samkvæmt ákæru Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu ná brot Sigurðar aftur til ársins 2006. Flest eru þau vegna gjaldeyrisviðskipta, en Sigurður er sagður hafa logið til um góð sambönd sín í bankakerfinu.

Sigurður mætti ekki við fyrirtöku málsins í morgun og sagði dómari að ákærða væri skylt að mæta og taka afstöðu til ákærunnar, þrátt fyrir að honum væri illa við veru fjölmiðla á staðnum. Hann hefur farið fram á að þinghald verði lokað og verður sú krafa tekin fyrir eftir helgina, en ákærandi segir engin lagaskilyrði fyrir lokuðu þinghaldi.

Sigurður er samtals sagður hafa svikið um 116 milljónir af 16 einstaklingum. Þar af fara 11 fram á skaða- eða miskabætur, eða hvort tveggja og í meðfylgjandi frétt má sjá yfirlit yfir þær bótakröfur sem lagðar hafa verið fram. Upphæðirnar sem brotaþolarnir krefjast eru frá rúmum 200 þúsundum upp í rúmar 13 milljónir króna, og alls nema þær tæplega 41 milljón króna. Við tölurnar bætast í mörgum tilfellum vextir og annar kostnaður.

Árið 1999 hlaut Sigurður 20 mánaða fangelsisdóm fyrir að svíkja tugi milljóna króna af aldraðri konu, en var síðan náðaður. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fengust ekki upplýsingar um það í dag af hverju náðunin var samþykkt. Náðanir eru ekki algengar hérlendis en í flestum tilfellum eru ástæður þeirra læknisfræðilegar, það er, heilsufarsástæður eru metnar svo knýjandi að ekki sé hægt að vista viðkomandi í fangelsi. Ekki fengust svör um það í dag hvort sú hefði verið raunin í þessu tilviki.

Meintir brotaþolar greiddu Sigurði allt að 16 milljónir króna og misstu þeir sem verst urðu úti nánast allt sitt. Fréttastofa ræddi við marga þeirra í dag en enginn treysti sér til að koma fram undir nafni.



Flestir lýsa þeir Sigurði sem siðblindum og var mikið niðri fyrir þegar hann bar á góma. Einn hafði þetta að segja: „Ég gerði mér ekki grein fyrir að um svik væri að ræða fyrr en ég fór að reyna að rukka hann og bankinn sagði mér frá því að þessi maður væri á vanskilaskrá. Ég vissi ekki að hann hefði fengið dóm áður.“

Öðrum varð þetta á orði: „Maður bara skammast sín fyrir að láta fara svona illa með sig. Mig grunaði aldrei að hann væri svindlari.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×