Innlent

Nicorette Fruitmint uppselt síðan í júlí

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Axel Ólafur Smith, lyfsali hjá Lyfjum og Heilsu, segir marga koma og spyrja um tyggigúmmíið.
Axel Ólafur Smith, lyfsali hjá Lyfjum og Heilsu, segir marga koma og spyrja um tyggigúmmíið. Mynd/GVA
Nicorette Fruitmint er uppselt á Íslandi og hefur á mörgum stöðum ekki verið fáanlegt síðan í lok júlí.

Nicorette Fruitmint er vinsælasta lyfjatyggigúmmíið á Íslandi og því margir fyrrverandi reykingarmenn á Íslandi svekktir þessa dagana.

„Allir styrkleikar og pakkningastærðir af tyggigúmmíinu eru uppseld. Við finnum vel fyrir skortinum því margir eru vanir að nota þessa tegund og þetta er líka ódýrasta nikótíntyggigúmmíið,“ segir Axel Ólafur Smith, lyfsali í Lyfjum og Heilsu í JL-húsinu.

Samkvæmt heimasíðu dreifingaraðila Nicorette er von á sendingu af tyggigúmmíinu um miðjan september.

En munu þá fyrrverandi reykingarmenn taka upp sígarettuna að nýju?

„Nei, það vona ég svo sannarlega ekki. Það er margt annað í boði og við gefum góðar ráðleggingar um önnur nikótínlyf. Svo erum við með aðrar bragðtegundir af Nicorette og aðrar tegundir af lyfjatyggigúmmí,“ segir Axel.

Samkvæmt markaðsstjóra hjá Visitor, sem flytur inn vöruna, stafar skorturinn á þessu vinsæla tyggigúmmí af vandræðum við framleiðslu þess og því er framleiðandinn ekki tilbúinn að senda vöruna frá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×