Innlent

Strætókort hækka um meira en 100% frá 2011

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Nemendur geta keypt sér sérstök strætókort á sérkjörum og margir nýta sér það.
Nemendur geta keypt sér sérstök strætókort á sérkjörum og margir nýta sér það. MYND/VÍSIR
Nemakort Strætó hafa hækkað um meira en 100% frá árinu 2011. Kortin voru ókeypis árið 2008 en hafa hækkað ár frá ári síðan þá. Þrátt fyrir þessa hækkun hafa aldrei fleiri tekið strætó og var var ágúst metmánuður hjá Strætó bs.

Nemendur eiga kost á að kaupa strætókort á sérkjörum, en gildistími þess er eitt ár. Allir nemendur í grunn og framhaldsskólum eiga rétt á nemakortinu, en fram kemur á vef Strætó að háskólanám fólks þarf að vera lánshæft hjá LÍN til að viðkomandi geti keypt kortið á þessum kjörum. Því þurfa háskólanemar að vera skráðir í minnst 20 einingar til að geta keypt Nemakort Strætó. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru þetta kröfur sem sveitafélögin setja, en þau niðurgreiða kortin.

Athygli vekur að nemakortin hafa hækkað talsvert frá árinu 2011, eða um rétt rúmlega 100%. Veturinn 2008 - 2009 buðu sveitafélög á höfuðborgarsvæðinu nemendum í framhalds- og háskóla frítt í strætó og voru nemakortin því ókeypis, en hafa hækkað ár frá ári síðan þá.

Veturinn 2009-2010 og 2010 - 2011 kostuðu kortin fimmtán þúsund krónur. Veturinn 2011- 2012 hækkuðu þau svo upp í tuttugu þúsund krónur. Haustið 2012 tóku kortin stökk upp í 38.500 krónur en þá lengdist gildistíminn lengdist úr níu mánuðum í tólf. Í ár kosta kortin 42.500.

Þrátt fyrir töluverða hækkun námsmannakortanna síðustu ár lítur út fyrir að aldrei hafi fleiri tekið strætó. Nýliðinn ágústmánuður var stærsti mánuður strætó frá upphafi. Þá seldust strætókort gegnum netið fyrir 110 milljónir króna, sem er er 10% aukning frá því í fyrra, en það var metár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×