Innlent

Komu hringnum loks í réttar hendur

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Íslensk hjón fundu fyrir tilviljun demantsskreittan hvítagullshring á Spáni fyrir fimm árum. Með hjálp veraldarvefsins og fjölmiðla tókst þeim að hafa uppi á sænskum eigendum hringsins, sem í dag komu hingað til lands til að vitja hans.

Hringurinn var grafinn í sand á sólarströnd á Spáni þegar hjónin Bergljót Rist og Sveinn Atli Gunnarsson fundu hann fyrir fimm árum. Inni í hringnum stóðu tvö sænsk nöfn og ártalið 1966.  Bergljót var strax ákveðin í að finna eigandann og auglýsti eftir honum í sænskum fjölmiðlum og á netinu.

Það var svo þegar Sveinn setti mynd af djásninu inn á prófíl sinn á vefsíðunni Google Plus sem hjólin fóru að snúast, en sænskir fjölmiðlar fóru í kjölfarið að skrifa greinar um hringinn. Þá fékk sænskur ættfræðingur áhuga á málinu.

„Ættfræðingurinn rak augun í fréttina í fjölmiðlum í Svíþjóð og einsetti sér að finna hjónin. Hann rannsakaði málið og á endanum kom bara eitt par til greina. Þá hafði hann samband við Jan og Kerstin og nú eru þau komin hingað til landsins," segir Sveinn.

Hinn sænski Jan dró hringinn á fingur sinnar heittelskuðu Kerstin á brúðkaupsdaginn árið 1966, en hann glataðist þegar parið var í fríi á Spáni árið 2005. Þeim brá því heldur betur í brún þegar þau fengu símtal þess efnis að hringurinn væri líklega fundinn. Hjónin gátu ekki hugsað sér að fá djásnið sent í pósti eftir öll þessi ár, svo þau gerðu sér ferð hingað til lands til að sækja hann. Nú er hann kominn í réttar hendur, og passar enn á fingur Kerstinar.

„Aldrei hélt ég að ég myndi fá hringinn minn, sem er 47 ára gamall, aftur í hendurnar. Þetta er bara algjört kraftaverk," segir Kerstin, en þau hjónin ætla að njóta helgarinnar á Íslandi ásamt Bergljótu og Sveini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×