Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að skipa nefnd til að ljúka heildarendurskoðun almannatrygginga og gera drög að frumvarpi til nýrra laga um lífeyrisréttindi.
Miðað er við að starfsgetumat komi í stað örorkumats og að skoðaðir verði kostir og gallar þess að auka möguleika fólks til sveigjanlegra starfsloka ásamt einföldun á lífeyriskerfinu.
Verkefni nefndarinnar felst annars vegar í innleiðingu starfsgetumats í stað örorkumats og hins vegar er nefndinni ætlað að fjalla um fjárhæðir lífeyrisgreiðslna til aldraðra og öryrkja og skila drögum að frumvarpi að nýjum lögum um lífeyrisréttindi almannatrygginga.
Félags- og húsnæðismálaráðherra segir mikilvægt að ljúka heildarendurskoðun laga um almannatryggingar: Almannatryggingar eigi að vera bæði öryggisnet og um leið stuðningsnet til að hjálpa fólki til sjálfsábyrgðar, bættrar heilsu og virkrar þátttöku í samfélaginu.
Lög um almannatryggingar endurskoðuð
Heimir Már Pétursson skrifar
