Innlent

Tengdasonur Bjarna Ben kjörinn formaður SUS

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Magnús Júlíusson er nýkjörinn formaður SUS. Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins.
Magnús Júlíusson er nýkjörinn formaður SUS. Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins.
Magnús Júlíusson, meistaranemi í verkfræði, var kjörinn formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna til tveggja ára á 42. Sambandsþingi SUS sem lýkur í Borgarnesi í dag.

Magnús er kærasti Margrétar Bjarnadóttur, dóttur Bjarna Benendiktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra landsins. Þau Magnús og Margrét hafa verið saman í hátt í þrjú ár að sögn Magnúsar.

„Honum leist vel á að ég byði fram, en þetta var nú bara að gerast svo ég hef ekki heyrt í honum eftir að úrslitin urðu ljós,“ segir Magnús.

Kærastan er með honum á þinginu og hún er að vonum stolt af sínum manni.

Magnús hlaut 58 atkvæði af 62 greiddum atkvæðum eða 94%. Davíð Þorláksson fráfarandi formaður gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

Magnús segir að það hafi verið mikil mæting og þátttaka á þinginu og að hann sé þakklátur fyrir stuðninginn.

„Ég tek við góðu búi af Davíð, sem hefur stýrt SUS kröftuglega síðustu tvö árin,“ segir Magnús.

„Ég hlakka til að takast á við verkefnin sem eru framundan og ég tel að þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í ríkisstjórn, sé enn mikilægara en áður að veita honum gott aðhald,“ segir hann.

Magnús er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann útskrifaðist sem stúdent af stærðfræðibraut Verzlunarskóla Íslands og með B.Sc. gráðu í hátækniverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík vorið 2011. Hann er nú að ljúka meistaranámi í sjálfbærum orkuvísindum innan vélaverkfræðideildar Konunglega Tækniháskólans í Stokkhólmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×