Viðskipti innlent

Þjóðbraut upplýsinga til Íslands víkkar stöðugt

Þorgils Jónsson skrifar
Á innan við aldarfjórðungi hefur nettenging Íslands við umheiminn eflst gríðarlega.
Á innan við aldarfjórðungi hefur nettenging Íslands við umheiminn eflst gríðarlega.
Daglegt líf hins almenna Íslendings er í síauknum mæli háð netnotkun, hvort sem er við leik eða störf.Fæstir hugsa þó til þess hve saga internetsins á Íslandi er í raun ógnarstutt.

Fyrsta eiginlega internettengingin milli Íslands og umheimsins var sett upp á hér á landi í ágúst 1989. Þremur árum áður höfðu Háskóli Íslands og Orkustofnun tengst Hafrannsóknarstofnun, sem var fyrsti vísirinn að neti hér innanlands. Árið 1987 voru svo gefin út fyrstu netföngin, hi.is, hafro.is og os.is.

Hröð þróun burðargetu

Á þeim árum var notast við samband í gegnum gervihnetti og var bandvíddin til landsins um 300 bitar á sekúndu. Til samanburðar má nefna að í dag felur grunnáskrift á ADSL frá Símanum inn á heimili í sér samband upp á 12 Mb (milljónir bita) á sekúndu.

Árið 1994 urðu nokkur kaflaskil þegar Cantat-3 strengurinn tengdi Ísland með ljósleiðara við Norður-Ameríku og meginland Evrópu. Bilanatíðni var hins vegar þó nokkur, en helsta ástæðan fyrir því að strengurinn slitnaði var lengi vel að hann flæktist í togaratrollum, og var þá samband um gervihnött eina varaleiðin.

Þannig var tengingunni háttað allt fram til ársins 2003 þegar Farice-1 strengurinn kom til sögunnar. Hann tengdi Ísland við Skotland í gegnum Færeyjar. Bandvídd Farice-1 var 720 Gb á sekúndu, sem var algjör bylting í flutningsgetu.

Síðasta viðbótin er Danice, sem er í eigu sama móðurfélags og Farice, Farice hf., sem er nú í eigu íslenska ríkisins, Landsvirkjunar og Arion banka. Danice var sett upp árið 2009 og tengir Ísland beint við Danmörku með bandvídd upp á 5,2 terabita á sekúndu. Sama ár var settur upp strengur milli Grænlands og Íslands og Cantat-3 var lagður af.



Enn einn strengur næsta haust


Strengir Farice bera sem stendur nær alla netumferð til og frá landinu, en nú hillir undir enn eina viðbótina. Vodafone gerði fyrr í þessum mánuði samning við fyrirtækið Emerald Networks um að 40 terabita sæstrengur milli Bandaríkjanna og Írlands, Emerald Express, verði leiddur með streng upp að Reykjanesi og taki til starfa haustið 2014.

Yfirlýst markmiðið með uppsetningu hans er ekki aðeins að svara síaukinni notkun almennings og auka netöryggi, heldur bæta verulega aðstöðu fyrir íslensk tæknifyrirtæki og uppsetningu gagnavera á Íslandi, en á vef Farice kemur fram að notkun gagnavera á Íslandi gæti verið tvöfalt meiri en notkun almennings.

Spennandi framtíðarhorfur

Framhaldið er því afar spennandi jafnt fyrir almenning sem erlend og innlend fyrirtæki og stofnanir. Netnotkun á Íslandi hefur vaxið gríðarlega frá því að landið tengdist umheiminum með fyrsta sæstrengnum. Á vef Farice segir að frá árinu 1995 til 2002 hafi netnotkun um það tvöfaldast ár frá ári. Eftir það hafi aukningin ekki verið eins skörp, en þó var hún 50 til 55 prósent ár hvert frá 2001 fram á síðasta ár, sem er svipuð þróun og verið hefur í öðrum vestrænum löndum.

Til næstu ára litið þykir talsmönnum stóru fjarskiptafyrirtækjanna fullvíst að þessi þróun muni halda áfram.

„Við sjáum fyrir okkur áframhaldandi aukningu, ekki síst vegna síaukinnar gagnanotkunar í farsímakerfinu,“ segir Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone, og bætir því við að vöxturinn þar hafi verið gríðarlegur.

Frumkvöðlarnir sáu möguleikana fyrir

Maríus Ólafsson hjá Reiknistofnun Háskólans var einn af forgöngumönnum verkefnisins þegar Ísland tengdist umheiminum fyrst með netsambandi í líkingu við það sem þekkist í dag, svokölluðu IP-sambandi, árið 1989. Með því tengdust Háskólinn og ýmsar rannsóknarstofnanir samnorrænu upplýsinganeti NORDUnet. Maríus hefur oft verið kallaður „Faðir internetsins á Íslandi“, en í samtali við Markaðinn segir hann frá aðdraganda fyrstu IP-tengingarinnar. 

„Þegar við byrjuðum var enginn strengur til Íslands heldur notuðumst við við tengingar um gervihnött. Fyrstu samböndin voru um það bil 300 bitar á sekúndu sem allir á Íslandi notuðu saman. Það var auðvitað ekki stórt, en nóg fyrir tölvupóst og einfaldari hluti. Þegar við tengdumst fyrst sendum við tölvupóst á á kollega okkar í Danmörku. Þar stóð „Sérðu þennan póst?“ eða eitthvað álíka, og svo fengum jákvætt svar til baka.“

Aðspurður hvort tímamótunum hafi verið fagnað segir Maríus að þeir hafi svosem verið í samskiptum við sömu aðila á annan hátt í nokkur ár. „En okkur þótti þetta mjög merkilegt, þótt aðrir væru kannski ekki eins spenntir fyrir þessu,“ segir hann og hlær.

Maríus segir notkunina svo hafa síaukist með tilheyrandi þörf á meiri burðargetu. Hann og hans kollegar hafi strax í upphafi verið meðvitaðir um möguleikana sem fælust í internetsamskiptum.

„Við vorum sannfærðir um að þetta væri framtíðin því að við höfðum átt í svipuðum samskiptum við umheiminn í nokkur ár. Þarna voru til dæmis ráðstefnunet sem voru notuð á líkan hátt og bloggsíður og Facebook í dag, bara annars eðlis. Það má örugglega sjá í gömlum viðtölum við okkur frá þessum árum að okkar hugleiðingar um framtíðina í þessum efnum hafa nokkurn veginn gengið eftir.“

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir
Sjónvarp í snjalltæki krefst meiri bandvíddar  

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir þróunina hafa verið gríðarhraða, sérstaklega frá því að fyrirtækið hóf að bjóða sjónvarpsútsendingar yfir netið.

„Nú eru um tveir þriðjuhlutar íslenskra heimila með sjónvarpstengingu í gegnum netið, sem er með því mesta sem þekkist. Við erum búin undir æ meira streymi myndefnis um netið. Sem dæmi má nefna að fyrir áramót buðum við eina dagskrá fyrir hverja sjónvarpsstöð í Sjónvarpi Símans en með Tímaflakkinu hefur fólk getað raðað henni upp eftir því sem það vill. Það þýðir að þúsundir geta horft á ólíkt efni sömu stöðvar á sama tíma,“ segir hún.

„Nú stefnir Síminn einnig á að bjóða Sjónvarp Símans fyrir snjalltæki. Hver fjölskyldumeðlimur getur þá horft á það sem hann vill hvenær sem hentar í snjalltækinu sínu eða tölvunni og hvort sem er á 3G/4G eða heimanetinu. Þessi þróun, auk annarrar afþreyingarþjónustu, kallar á meiri bandvídd bæði innanlands og utan,“ segir Gunnhildur og bætir því við að Síminn hafi yfirdrifið mikla bandbreidd til að anna eftirspurn næstu misserin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×