Innlent

Guðlaugur Þór í oddvitaslaginn?

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Umræða um leiðtogaprófkjör er hávær þegar kemur að uppröðun á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur fengið mikla hvatningu til að bjóða sig fram í oddvitasætið.

Til þessa hafa fjórir einstaklingar mest verið í umræðunni þegar kemur að oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári, en þetta eru borgarfulltrúarnir Július Vífill Ingvarsson sem hefur staðfest að hann ætli fram, Kjartan Magnússon sem sagði í samtali við fréttastofu í dag að það komi vel til greina að hann bjóði sig fram í oddvitasætið. Gísli Marteinn Baldursson er ákveðinn með að hann ætlar að halda áfram í borgarstjórn á næsta ári, en segist enn ekki hafa tekið ákvörðun um hvort hann muni bjóða sig fram í efsta sætið. Fjórði einstaklingurinn í þessum hópi er Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, en hún á enn eftir að gefa út endanlega ákvörðun sína um oddvitaslaginn.

Háværar raddir hafa verið uppi á meðal sjálfstæðismanna að Guðlaugur Þór Þórðarson sé að íhuga að gefa kost á sér í fyrsta sæti. Hann sagði í samtali við fréttastofu í dag marga hafa komið að máli við sig og hvatt hann til þessa. Guðlaugur vildi þó engu svara um hvort að þær hvatningaraddir væru búnar að hafa þau áhrif að hann ætli að bjóða sig fram.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvaða leið verður farin við röðun á listanum en samkvæmt heimildum fréttastofu er meðal annars umræða í gangi að um leiðtogaprófkjör verði að ræða, en það þýðir að sjálfstæðismenn í borginni kjósa sér oddvita listans. Vörður-fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík raðar svo restinni af frambjóðendum undir oddvitann. Verði að þessu kjósa því flokksbundir sér einungis oddvitann í prófkjöri. Þessi leið hefur ekki verið farin áður. Til stóð að fara hana árið 2002, en tillagan var síðar dregin til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×