Innlent

Vonast til framkvæmdir við Gálgahraun verði stöðvaðar

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Framkvæmdir við Gálgahraun hófust á föstudaginn síðasta.
Framkvæmdir við Gálgahraun hófust á föstudaginn síðasta. mynd/365
Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands vonar að Vegagerðin ákveði að stoppa framkvæmdir um lagningu nýs vegar yfir Gálgahraun frá Garðabæ til Álftaness og bíði eftir niðurstöðu dóms um lögmæti framkvæmdanna.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ hefur sagt að rétt hefði verið staðið að öllu í ferlinu, framkvæmdin hafi staðist umhverfismat og heimild hafi fengist fyrir henni.

Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir halda því hins vegar fram að framkvæmdin sem hafin er við Gálgahraun um lagningu nýs vegar sé ólögmæt. Framkvæmdaleyfið sem gefið var út árið 2009 til eins árs sé löngu útrunnið og því hafi framkvæmdir óumdeilanlega aldrei hafist á gildistíma leyfisins.

Jafnframt sé umhverfismat fyrir framkvæmdinni, sem hafi 10 ára gildistíma að lögum, útrunnið. Umhverfismatið sé nú orðið rúmlega 11 ára gamalt.

Vegagerðin hefur haldið því fram að með því að með því að stoppa málið myndi Vegagerðin líklega skapa sér skaðabótaskyldu gagnvart verktakanum sem fer með framkvæmdina.

Skúli Bjarnason hæstaréttarlögmaður bendir á að málið sem náttúruverndarsamtökin höfðuðu hafi verið þingfest 18. júní síðastliðinn en  Vegagerðin skrifaði ekki undir samninginn við verktakann fyrr en 5. júlí. 

Skúli segir að því sé  afar ólíklegt að Vegagerðin hefði skapað sér skaðabótaskyldu gagnvart verktaka fyrir undirritun samningsins. Í þessu máli sé miklu frekar eins og að Vegagerðin sé að reyna að skapa sér skaðabótaskyldu og pressa á að framkvæmdir hefjist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×