Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu er æfur vegna niðurstöðu hæstaréttar í gær þar sem fjögurra ára fangelsisdómur yfir honum, vegna skattalagabrota, var staðfestur.
Berlusconi birti í gær yfirlýsingu á einni af sjónvarpsstöðvum sínum þar sem hann sagði ofsóknir dómsvaldsins einkennast af fordæmalausri bræði sem eigi sér engan líka í heiminum.
Þetta var hið fyrsta af mörgum dómsmálum sem rekin hafa verið gegn Berlusconi síðustu ár sem kemst á leiðarenda í dómskerfinu, en auðjöfurinn hélt fram sakleysi sínu. Þá þykir honum illa farið með sig eftir allt það sem hann hafði gert fyrir land og þjóð.
„Eftir allt það sem ég hef gert fyrir land mitt í nær tuttugu ár, þegar ég er að nálgast lok starfsaldurs, hlýt ég að launum ásakanir og dóm sem er algerlega tilhæfulaus og sviptir mig frelsi og pólitískum réttindum.“
Berlusconi, sem er 77 ára gamall, mun að öllum líkindum ekki þurfa að sitja af sér dóminn í fangelsi, heldur er líklegra að hann sitji af sér í stofufangelsi eða með samfélagsþjónustu.
Rétturinn vísaði banni við því að Berlusconi gegni opinberu embætti í fimm ár, aftur til undirréttar.
