Viðskipti innlent

Þvingunaraðgerðir ESB hafa engin áhrif á sölu makríls

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Löndunarbann á makríl og skyldar afurðir hefði lítil sem engin áhrif á íslensk útgerðarfyrirtæki því stærstur hluti aflans er seldur til ríkja utan Evrópusambandsins, aðallega Rússlands og Nígeríu. Í fjögur ár hefur efnislega engin framvinda orðið í makríldeilunni.

Makríll, þessi fallegi fiskur sem umdeilt er hversu góður er á bragðið kom eins og himnasending inn í íslenskan sjávarútveg og þar með íslenskt efnahagslíf. Stofninn sótti norður á bóginn í leit að æti og nú er 43 prósent lífmassa tegundarinnar innan efnahagslögsögu Íslands, samkvæmt skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis frá mars 2012. Tekjur þjóðarbúsins af makríl námu 24,5 milljörðum króna árið 2011 og 26 milljörðum króna árið 2012. Reistar hafa verið verksmiðjur hér á landi nær alfarið fyrir makrílgróða.

Fyrir fimm árum var makrílinn aðeins fylgiafli með loðnunni og var nánast aðeins nýttur í bræðslu. Umskiptin eru því með ólíkindum. Ágreiningur Íslands, Noregs og Evrópusambandsins um hlutdeild í stofninum hefur nú staðið yfir í á fjórða ár án niðurstöðu.

Röng lögskýring skosks þingmanns

Evrópuþingið samþykkti í fyrra reglugerð um aðgerðir gegn ríkjum sem stunda ósjálfbærar veiðar á tegundum sem deilt er um, lesist makríl. Mikill þrýstingur er á sjávarútvegsstofnun ESB að beita þessari reglugerð. Struan Stevenson, skoskur þingmaður á Evrópuþinginu, beitir framsækinni túlkun á henni og heldur því fram að hún heimili viðskiptaþvinganir á öllum fisktegundum, einnig þorski. Helgi Áss Grétarsson dósent hefur stundað rannsóknir á fiskveiðilöggjöfinni hér og erlendis.

Telur þú að þessi tilskipun geti náð til löndunarbanns eða viðskiptatakmarkana með þorsk eins og skoski þingmaðurinn heldur fram? „Ég tel það mjög hæpið, fyrst og fremst af því að reglugerðin skilgreinir hvaða tegundir geti fallið þarna undir. Þorsktegundin er það ólík makrílnum að það er mjög hæpið að leggja á innflutningsbann á þeirri fisktegund. Einnig með hliðsjón af meðalhófsreglunni sem getið er í reglugerðinni."

Þannig að þetta er röng lögskýring hjá þingmanninum? „Ég tel svo vera miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir," segir Helgi Áss.

Viðskiptaþvinganir í Evrópusambandinu hafa engin áhrif á sölu

Iceland Seafood er einn stærsti endursöluaðili makríls á Íslandi. Fyrirtækið kaupir makrílinn af innlendum útgerðarfyrirtækjum og selur hann svo utan landsteinananna. Fáir búa yfir betri og nákvæmari upplýsingum um verslun með makríl og makrílafurðir en starfsmenn fyrirtækisins.

Friðleifur Friðleifsson, framkvæmdastjóri sölusviðs Iceland Seafood, segir að löndunarbann á makríl myndi lítil sem engin áhrif hafa á sölu makríls.

Seljið þið eitthvað af makríl til ríkja Evrópusambandsins? „Nei, það er afskaplega lítið. Það er nánast ekki neitt. Lungað af afurðunum fer til Austur-Evrópu og Afríku," segir Friðleifur.

Um er að ræða Rússland, Úkraínu og Nígeríu aðallega.

Þannig að löndunar- og viðskiptabann á makríl myndi lítil sem engin áhrif hafa á sölu Íslendinga á makríl? „Ja, löndunarbann á afla skipa í Evrópusambandinu hefði ekki nein áhrif. Engin áhrif," Friðleifur.


Tengdar fréttir

Heimtar refsiaðgerðir gegn Íslendingum í kvöld

Sjávarútvegsráðherrar Evrópusambandsins fjalla nú um viðbrögð vegna veiða Íslendinga og Færeyinga á makríl. Írar og Bretar tilkynntu fyrir fundinn að tími væri kominn til að fara í hart vegna deilunnar. Forsætisráðherra Íslands fundar með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vegna málsins á morgun.

Íslendingar gefi eftir í makríldeilunni

Varaformaður fiskveiðinefndar Evrópuþingsins segir að íslensk stjórnvöld verði að fallast á sáttatilboð Noregs og Evrópusambandsins í makríldeilunni til að komast hjá viðskiptaþvingunum. Hann telur að þvinganirnar brjóti ekki gegn alþjóðlegum viðskiptasamningum en segir að Íslendingum sé frjálst að vísa málinu til dómstóla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×