Innlent

"Þetta er bara froða, þessar umræður"

Jóhannes Stefánsson skrifar
Jón Steinar Gunnlaugsson segir að innheimta veiðileyfagjalds sé skattur í skilningi 40. gr. stjórnarskrárinnar
Jón Steinar Gunnlaugsson segir að innheimta veiðileyfagjalds sé skattur í skilningi 40. gr. stjórnarskrárinnar
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari, segir ljóst af umræðu um veiðileyfagjöld að ákveðins misskilnings gæti um það hvað skattur sé.

„Ég held að það sé ljóst að það er ekki hægt að innheimta veiðigjald nema það sé lagaheimild til þess að gera það. Það byggist á 40. grein stjórnarskrárninnar þar sem kveðið er á um það að engan skatt megi á leggja nema samkvæmt lagaheimild. Í þeim skilningi er þetta bara skattur," segir Jón.

Eins og kom fram í fréttum Vísis fyrr í dag hafa bæði Guðmundur Steingrímsson og Árni Páll Árnason haldið því fram að veiðigjaldið sé ekki skattur. Guðmundur segir svo ekki vera í ljósi þess að veiðigjaldið sé „gjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar." Árni Páll segir veiðigjaldið vera „sérleyfi til að nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og afgjald fyrir það er ekki skattur.“

Enga lagaheimild þyrfti til innheimtunnar ef ekki væri um skatt að ræða

Jón gefur lítið fyrir þessar skýringar og segir mjög frjálslega farið með skilgreiningar á því hvað sé skattur. „Þetta er bara einhver froða, þessar umræður. Er þá verið að meina að það sé verið að innheimta gjaldið án lagaheimildar? Það tel ég að sé rangt. Það kemur ekki til mála að það sé hægt."

Hann segir að ef rétt væri að ekki væri um skatt að ræða þá væri einsýnt að ekki þyrfti sérstök lög þyrfti til að innheimta veiðileyfagjald. „Ég veit ekki hvort að menn halda því fram að það sé hægt að gera það vegna þess að þetta sé einhver útleiga á eignum ríkisins eða eitthvað slíkt. Ef þeir eru að halda því fram þá er það bara misskilningur. Það mætti leigja út húsið sem hýsir Stjórnarráðið, til dæmis, og taka leigugjald fyrir það. En það má ekki með fiskveiðiréttinn. Það verður að minnsta kosti að hafa lagaheimildir til að mega leggja það gjald á. Þetta er nú eiginlega bara svarið við þessu. Ef menn halda það að vegna þess að þeir telja að þjóðin eigi auðlindina eins og komist er að orði, að þar með geti bara fyrirsvarsmenn ríkisins tekið að selja aðgang að auðlindinni án þess að það teljist vera skattur í skilningi 40. gr. stjórnarskrárinnar, þá er það bara misskilningur," bætir hann svo við.

Veiðigjald álitið skattur í lögum um veiðigjald

Í frumvarpi til laga nr. 74/2012 um veiðigjöld segir meðal annars: „Meginmarkmið með skattlagningu í sjávarútvegi eru þau að tryggja það að rentan af fiskveiðiauðlindinni skili sér til þjóðarinnar."

Þá segir einnig í Úlfljóti, 1. tbl. 2006 í grein eftir Sigurð Líndal lagaprófessor: „Hér verður að hafa í huga að með orðinu skattur er tekið mið af viðtekinni skilgreiningu hugtaksins, þannig að það nær til opinberra gjalda sem bera einkenni skatta, þótt önnur orð séu notuð, svo sem útsvar, sóknargjöld, tollar eða veiðigjald."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×