Handbolti

Þakkarræða Óla Stef

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Ég er búinn að komast að því að ef maður kíkir aðeins undir steininn í íslensku þjóðfélagi getur maður þakkað fyrir að komast í gegnum æskuna áfallslaust og pressulaust. Takk fyrir að leyfa mér að vera strákur.“

Þetta eru skilaboð Ólafs Stefánssonar til móður sinnar, fósturföður síns Tryggva Aðalbjörnssonar og föður síns í þakkarræðu sem hann flutti í samtali við Valtý Björn Valtýsson, íþróttafréttamanna Stöðvar 2 í dag.

Ólafur fór um víðan völl í þakkarræðu sinni. Þakkaði hann þjálfurum sínum úr yngri flokkum, unglingalandsliðum, félagsliðum um heim allan og nefndi hvað þeir höfðu gert til þess að hjálpa sér á löngum og sigursælum ferli.

Þakkaði hann meðal annars Þorbirni Jenssyni fyrir að hafa leyft sér að spila vörn, Alfreð Gíslasyni fyrir að gera sig sterkan og fljótan og Boris Bjarna Akbachev fyrir að skamma sig.

„Takk öll fjölskyldan fyrir að þola mig, vera góð við mig og hafa aldrei sagt neitt ljótt um mig,“ sagði Ólafur en fjölmargir fengu þakkir markahæsta landsliðsmanns Íslands frá upphafi.

Ólafur ræddi einnig um hvernig honum litist á stöðu mála hjá Valsmönnum og efniviðinn í íslenskum handbolta. Þá er rétt að geta að eftir að slökkt hafði verið á myndavélinni þakkaði hann ömmu sinni sérstaklega fyrir allt það sem hún hafði gefið honum. Sömuleiðis vildi Ólafur koma sérstökum þökkum á framfæri til Guðmundar Þórðar Guðmundssonar.

„Þetta er endalaus rannsókn þannig að þetta er enginn endapunktur. En

ég er auðvitað hættur sem leikmaður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×