Golf

Fór holu í höggi og setti vallarmet

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Fannar Ingi slær.
Fannar Ingi slær. MYND/GSIMYNDIR.NET

Ungur Hvergerðingur Fannar Ingi Steingrímsson stal senunni á Íslandsbankamótaröðinni sem lauk á Hellu nú síðdegis. Fannar setti vallarmet þegar hann lék völlinn á 61 höggi eða 9 undir pari í flokki 15-16 ára drengja.

Fannar vann flokkinn á alls 3 undir pari en hann fór holu í höggi á 8. holu vallarins í dag.

„Ég var aldrei að hugsa um vallarmet eða skorið yfirleitt en það var auðvitað gaman að fara holu í höggi,“ sagði Fannar við kylfingur.is í dag eftir hringinn ótrúlega.

Fannar lék nýverið á alþjóðlegu unglingamóti í Skotlandi þar sem hann hafnaði í 6. sæti, einu höggi frá 2. sætinu. Þessi bráðefnilegi kylfingur var að vonum ánægður með árangurinn.

„Ég var þreyttur og aðstæður voru gjörólíkar þar sem flatirnar voru svo miklu hraðari í Skotlandi. Eftir smá hvíld og aðlögun að flötunum á Hellu var ég kominn í góðan gír,“ sagði Fannar.

Birgir Björn Magnússon GK hafnaði í öðru sæti, tveimur höggum á eftir Fannari en hann fór síðustu holuna á 8 höggum eða fjórum yfir pari. Kristófer Orri Þórðarson GKG hafnaði í þriðja sæti.

Bráðbana þurfti til að knýja fram úrslit í strákaflokki 14 ára og yngri. Ingvar A. Magnússon GR vann Kristján B. Sveinsson á 2. holu bráðabanans.

Ragnar Már Garðarsson GKG vann í flokki pilta 17-18 ára og Gunnhildur Kristjánsdóttir GKG vann í stúlknaflokki 17-18 ára.

Ragnhildur Kristinsdóttir GR vannn í flokki telpna 15-16 ára og Gerður Hrönn Ragnarsdóttir í GR vann í flokki stelpna 14 ára og yngri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×