Lífið

Grænmetisætur á Íslandi stofna samtök

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Sigvaldi er umsjónarmaður rokkþáttarins Dordinguls á Rás 2.
Sigvaldi er umsjónarmaður rokkþáttarins Dordinguls á Rás 2.
Grænmetisætur á Íslandi hafa tekið höndum saman og ákveðið að stofna samtök. Stofnfundurinn verður haldinn á morgun og Sigvaldi Ástríðarson þáttagerðarmaður á RÚV er einn af stofnendum samtakanna.

„Það eru nálægt hundrað manns búnir að skrá sig á fundinn,“ segir Sigvaldi, en samtökin hafa enn ekki hlotið nafn. „Það er meðal þess sem kosið verður um á fundinum á morgun.“

Sigvaldi segir grænmetisætur á Íslandi halda hópinn á Facebook-síðu sem telur um 700 manns. Hann á því von á því að samtökin verði fjölmenn.

„Þetta eru hagsmunasamtök að fordæmi erlendra samtaka og margt til að berjast fyrir. Meiri virðingu í garð okkar grænmetisætanna, kynna matarvenjur okkar fyrir fólki, kynna lífsstílinn fyrir veitingastöðum. Þú getur varla keypt salat á veitingastað á Íslandi án þess að það sé kjúklingur í því.“

Sigvaldi segir grænmetisætur ekki upplifa fordóma í sinn garð en að margir eigi erfitt með að skilja að sumir hafi öðruvísi matarvenjur en aðrir.

„Sumir halda að við lifum bara á kálblöðum og tómötum en það er hlutverk samtakanna að uppfræða almenning,“ segir Sigvaldi, og segir allar grænmetisætur velkomnar á fundinn.

„Sjálfur er ég vegan, svona harðasta týpan af grænmetisætu, en þetta er fyrir allar grænmetisætur. Það er mjög mikilvægur punktur. Svo erum við að sjálfsögðu tilbúin að aðstoða fólk sem vill gerast grænmetisætur, en það verður að sjálfsögðu að stíga fyrsta skrefið sjálft.“

Fundurinn hefst klukkan 14 á morgun og verður haldinn í Borgartúni 24. Þá var Sigvaldi í spjalli við Í bítið í morgun ásamt Sæunni Ingibjörgu Marínósdóttur. Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.