Innlent

Gunnar Smári um gildi alkapillu

Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar
Gunnar Smári segir engan græða á lyfjalausum bata og því séu framlög af skornum skammti.
Gunnar Smári segir engan græða á lyfjalausum bata og því séu framlög af skornum skammti.
„Er þetta lyf sem fólkið sleppir að taka ef það vill komast í vímu? Ég þekki fólk sem myndi taka slíka ákvörðun,“ segir Gunnar Smári Egilsson formaður SÁÁ í samtali við blaðamann Vísis (á Facebook).

Vísir greindi frá því í morgun að danska lyfjafyrirtækið Lundbeck hefur sett nýtt lyf á markaðinn en það hefur þau áhrif að draga úr áfengisneyslu þess sem tekur það. Gunnar Smári efast um gagnsemi slíkrar pillu en segir það gleðitíðindi ef lyfjaiðnaðinum tækist að draga úr þjáningum áfengis- og vímusjúklinga og aðstandenda þeirra. „Hingað til hefur þessi iðnaður því miður fyrst og fremst aukið vanda þessa sjúklingahóps, seinkað bata og haldið fólki frá batanum. En ef það kæmi fram lyf sem myndi lækna alka efast ég ekki um að sjúkrastofnanir SÁÁ myndu nota þau.“

Takmarkað gildi fyrir sjúklingana

Gunnar Smári segir það sorglega við lyfjaiðnaðinn vera; „að það er hann sem drífur áfram heilbrigðiskerfið. Í dag er varið um 1.100 milljónum króna til áfengis- og vímuefnalækninga (SÁÁ, Landspítali, Samhjálp og fleira) sem að mestu leyti stefna á lyfjalausan bata. Þetta er kostnaðurinn við meðferð við sjúkdómi sem er meginheilbrigðisvandi um 30 þúsund landsmanna; semsé 36.500 krónur á mann. Ef lyfjafyrirtækin koma á markað lyfi sem talið er virka á alkóhólisma myndu þessi framlög margfaldast á stuttum tíma (jafnvel þótt lyfin hefðu takmarkað gildi fyrir sjúklingana).

Enginn græðir á lyfjalausum bata

Formaður SÁÁ er ómyrkur í máli þegar lyfjafyrirtækin eru annars vegar. Lyfjalaus bati eins og sá sem SÁÁ stefnir á hefur þann galla að ekkert fyrirtæki græði á honum. „Þvert á móti tapa lyfjafyrirtækin og ÁTVR. Þess vegna er enginn hvati í nútímasamfélagi (sem er drifið áfram af einkahagsmunum; stjórnmálamenn og stjórnsýsla þjóna aðeins slíkum hagsmunum og hafa misst sjónar af almannahag, sem fór úr tísku á síðustu öld) til að styðja við lyfjalausan bata. Þetta sést einnig í meðferð við geðröskunum; þar vex aðeins sú meðferð sem lyfjafyrirtækin geta grætt á; önnur meðferð er að koðna niður. Og það getur vel orðið örlög bataleiðarinnar við alkóhólisma; stjórnvöld hafa verið að reyna að brjóta hana niður svo til alla þessa öld.“


Tengdar fréttir

Lundbeck setur áfengispillu á markaðinn

Danska lyfjafyrirtækið Lundbeck hefur sett nýtt lyf á markaðinn en það hefur þau áhrif að draga úr áfengisneyslu þess sem tekur það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×