Viðskipti innlent

Um 11% af heimsaflanum kemur úr N-Atlantshafi

Fiskveiðar í Norður Atlantshafi eru um 11% af heildarfiskveiðum í heiminum. Norðmenn veiða mest af þessum afla eða um 23%.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um sjávarútveg í Norður Atlantshafi á sem dreift verður á sjávarútvegssýningunni í Brussel sem hófst í dag. Skýrslan er unnin af sjávarútvegsteymi Íslandsbanka.

Í tilkynningu segir að í skýrslunni er farið yfir sjávarútveg í  norður Atlantshafi með sérstaka áherslu á Ísland, Noreg, Færeyjar, Grænland, Kanada og Bandaríkin. Meðal þess sem fjallað er um í skýrslunni eru veiðar  á svæðinu, útflutningur sjávarafurða, veiðar og helstu fiskitegundir hvers lands fyrir sig og að lokum er fjallað um fiskeldi þjóðanna sex.

Fiskveiðar í norður Atlantshafi eru um 11% af heildar fiskveiðum í heiminum.   Norðmenn eru stærsta fiskveiðiþjóðin og landa yfir 23% af heildar afla á svæðinu. Heildarafli  árið 2011 var 10,3 milljónir tonna og dróst saman um 7,2% frá fyrra ári. Atlantshafs síldin er mest veidda tegundin, en þorskur og markíll koma þar á eftir.  Lax er verðmætasta útflutningstegundin og því næst kemur þorskur.  

Fiskeldi er mikilvægur þáttur í hagkerfi þjóða  í norður atlantshafi.  Norðmenn framleiða yfir 80% af þeim fiski sem kemur úr fiskeldi í norður Atlantshafi. Það samsvarar um 1.1  milljón tonna og er laxeldi þar stærsti hlutinn. Eldisfiskur var 41,3% af heildar framboði fisks  í heiminum árið 2011 og jókst um 6,2% frá árinu 2010. 

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) spá því að árið 2018 muni heildarframboð eldisfisks til manneldis verða meira en framboð af veiddum fiski. Þessi mikli vöxtur fiskeldis mun án efa teygja anga sína í norður Atlantshaf og valda því að aukin áhersla verður lögð á eldi.  

Athyglisvert er að allar þjóðirnar, sem fjallað er um í skýrslu Íslandsbanka, hafa einhverskonar kvótakerfi á veiðunum en útfærsla kerfisins er mismunandi milli landa, t.d. hvað varðar heimild til framsals kvóta og hvort sett er hámark á aflaheimildir ákveðinna fisktegunda. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×