Viðskipti innlent

Bankar og fjármálafyrirtæki aftur farin að lána fyrir hlutabréfum

Ingveldur Geirsdóttir skrifar
Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon.
Bankar og fjármálafyrirtæki eru aftur farin að veita lán til hlutabréfakaupa. Hagfræðingur segir skuldsett hlutabréfakaup alltaf áhættusöm og afleiðingarnar geti orðið minni útgáfa af hruninu 2008.

Hlutabréfaviðskipti hafa aukist mjög að undanförnu sem má meðal annars sjá á verðbreytingum á hlutabréfum frá áramótum. Þá bendir mikil eftirspurn eftir bréfum í VÍS og TM til líflegs markaðar en tíföld umframeftirspurn var eftir bréfum í VÍS, tilboð bárust fyrir 150 milljarða en ríflega 14 milljarða hlutur var í boði.

Gylfi Magnússon hagfræðingur segir að það sé mikil eftirspurn eftir öllum fjárfestingakostum. Hér sé gríðarlega mikið fé fast vegna gjaldeyrishaftanna og menn leiti ávöxtunarleiða. Fordæmi eru fyrir því að þegar mikil eftirspurn myndast hækki hlutabréfaverð umfram það sem innistæða er fyrir.

„Það gerðist auðvitað í aðdraganda hrunsins en tölurnar undanfarin ár hafa ekki verið neitt í líkindum við það sem við sáum t.d 2004 til 2006 þannig að það er kannski of mikið sagt að við séum komin með einhverja hlutabréfabólu núna,“ segir Gylfi.

Fjármálaeftirlitið sendi frá sér tilkynningu í vikunni þar sem þau vöruðu við skuldsettum hlutabréfakaupum.  Ekki var eitt sérstakt tilefni til þess að þau gáfu út tilkynninguna að sögn Unnar Gunnarsdóttur forstjóra FME, annað en ljóst sé að hlutabréfaverð hafi hækkað mjög mikið og þau líti á það sem sitt hlutverk gagnvart neytendum að benda þeim á þá áhættu sem fylgir slíkum viðskiptum. Gylfi segir skuldsett hlutabréfakaup alltaf áhættusöm, þeir sem vilji fjárfesta í hlutabréfum eigi að fjárfesta með eigið fé, ekki annarra.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru dæmi um að bankar og fjármálafyrirtæki séu farnir að lána allt að 60 til 70% af hlutabréfaverði, jafnvel hærra til góðra viðskipavina.

„Það yrði þá einhver minni útgáfa af því sem gerðist hérna 2008, þar sem að ef illa fer, hlutabréfaverð lækkar hverfur eigið fé þeirra sem hafa tekið svona mikið að láni mjög hratt og lánveitendur sitja eftir með skellinn. og auðvitað vill enginn bjóða aftur upp í slíkan dans,“ segir Gylfi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×