Viðskipti innlent

Ríkissjóður er ekki aflögufær, stjórnmálamenn þegja um stöðuna

Forsendur fjárlaga ársins 2013 hafa versnað og öllum ætti að vera ljóst að ríkissjóður er að öðru óbreyttu ekki aflögufær til þess að bæta kjör landsmanna.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Þar segir að ríkissjóður er enn í þeirri stöðu að u.þ.b. 15% tekna er varið í vaxtagreiðslur. Það er frekar líklegra en hitt að skuldir ríkisins fari vaxandi á næstu árum, en að úr þeim dragi. Allt bendir því til þess að nauðsynlegt sé að halda áframhaldandi aðhaldi í fjármálum til streitu enn um hríð. Loforðum um kjarabætur úr ríkissjóði verða því að fylgja betri skýringar á því hvernig eigi að afla fjár til að fjármagna þau.

„Ótrúlega lítil umræða hefur verið um stöðu ríkisfjármála í kosningabaráttunni. Ríkisstjórnin hefur allt síðasta ár bent á góðan árangur sinn við stjórn ríkisfjármála, en svo virðist sem stjórnarandstaðan sjái sér ekki lengur hag í því að hafa uppi hefðbundin mótmæli gegn þeim málflutningi. Það ríkir því eins konar þegjandi samkomulag meðal stjórnmálamanna að minnast sem minnst á ríkisfjármál, enda mörg loforð uppi sem ríkissjóði er ætlað að standa undir,“ segir í Hagsjánni.

Talin eru upp ýmis útgjöld eins og m.a.  nýlegar launahækkanir hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum, stóraukin útgjöld til löggæslunnar og aukinn kostnað vegna Hörpu.

„Allt eru þetta þó smámunir í samanburði við fjárþörf íbúðalánasjóðs og uppbyggingu nýs Landspítala, að ekki sé talað um sívaxandi lífeyrisskuldbindingar sem ríkissjóður hefur tekið á sig og nema nú um 400 milljörðum kr.,“ segir í Hagsjánni.

„Það er því ljóst að sá útgjaldarammi sem rætt hefur um í sambandi við fjárlög er löngu sprunginn. Sumt af þessu er enn á teikniborði, en ýmislegt er raunverulegt eins og fjárþörf Íbúðalánasjóðs þar sem nefndar hafa verið tölur yfir 100 milljarða á næstu árum sem ekki verður séð að verði fjármögnuð öðruvísi en með lántöku.“

Þá segir að á sama tíma og þessi skilaboð blasa við keppast stjórnmálamenn við að lofa lækkun skatta, endurgreiðslu skulda, niðurgreiðslu lána og ýmsum öðrum gæðum kjósendum til handa.

Ríkisbúskapnum hefur verið stýrt í rétta átt á síðustu misserum, auðvitað með auknum álögum á þegna landsins og skertri þjónustu. Sú staða sem blasir við fjárahagsstöðu ríkisins segir okkur að því tímabili sé langt frá því lokið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×