Innlent

Alþingi á suðupunkti: "Stundum færi þér betur að þegja“

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var ósátt við frammíköll Össurar.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var ósátt við frammíköll Össurar.
Það má segja að allt sé á suðupunkti á Austurvelli þar sem umræða um vantrauststillögu Þórs Saari á ríkisstjórnina fer fram. Alls höfðu 24 þingmenn tekið til máls þegar Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kvaddi sér hljóðs. Hún benti á ýmsa hnökra sem höfðu verið á stjórnarskrármálinu. Meðal annars að hin breiða fylking af landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu hefði ekki náð kjöri í kosningum til Stjórnlagaráðs. Það hefðu að mestu leyti verið þekkt andlit sem hefðu verið kjörin. Þetta þyrfti að hafa í huga þegar verið væri að ræða um persónukjör.

Hún tók þó skýrt var að hún væri hlynnt því að auðlindir yrðu í eigu ríkis og umsjón þess. Það er rangt sem fram hefur komið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið gegn því," sagði hún en svo sagði hún að hún myndi styðja vantrauststillöguna og nefndi landsdómsmálið sem eina aðalástæðu þess. Það mál væri ríkisstjórninni til ævarandi skammar. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra greip nokkrum sinnum frammí fyrir Ragnheiði og var ósáttur, enda greiddi Össur ekki atkvæði með ákæru á hendur Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, þegar hún var samþykkt. Taldi Össur málflutning Ragnheiðar ekki vera sanngjarnan.

„Það er ekkert óheiðarlegt við þetta hæstvirtur utanríkisráðherra, stundum færi þér betur að þegja," sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir þá. Þuríður Backman, sat í stól forseta Alþingis þegar þessi orðaskipti fóru fram, og bað hún þingmenn vinsamlegast um að leyfa ræðumönnum að ljúka við mál sitt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×