Innlent

Mikil hætta þegar hjól losnaði - fór framhjá konu með barnavagn á gangbraut

Gatnamótin þar sem óhappið átti sér stað.
Gatnamótin þar sem óhappið átti sér stað.
„Ég var nú bara að keyra þegar ég sá dekkið losna og rúlla á milli akreina," segir Sveinn Birkir Björnsson, sem varð vitni af því þegar hjól losnaði af strætisvagni í morgun, en töluverð hætta skapaðist vegna þessa.

Hjólið, sem er tæplega metri á hæð, og vegur tugi kílóa, rúllaði á mikilli ferð áfram austur eftir Miklubrautinni, yfir gatnamót Kringlumýrabrautar og Miklubrautar.

Sveinn Birkir segir að á sama tíma hafi kona með barnavagn verið að ganga í suður, yfir Miklubrautinni að Kringlunni, þegar hjólið kom aðvífandi. „Hún er komin út á götu þegar dekkið þýtur framhjá henni. En það var líklega ein akrein á milli þeirra," útskýrir Sveinn Birkir þegar hann lýsir hættunni sem skapaðist við atvikið.

Sjálfur sat hann í bíl á þessum tíma og var stopp við götuljósin á leiðinni austur eftir Miklubrautinni.

Hann segir að hjólið hafi augljóslega rekist utan í bláa jeppabifreið og skildi þar eftir sig djúpa dæld að sögn Sveins Birkis. „Dekkið gaf allavega ekkert eftir," bætir hann við.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu olli hjólið tjóni á minnst þremur bílum. Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir óhappið ekki einsdæmi en þó afar fátítt hjá Strætó. Hann benti á að færð undanfarna daga hafi líklega orðið til þess að boltar losnuðu, en enn er verið að rannsaka orsakir slyssins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×