Innlent

Um 50 flóttamenn sótt um hæli á tveimur mánuðum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra reifaði málið fyrir ríkisstjórn í dag.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra reifaði málið fyrir ríkisstjórn í dag. Mynd/ GVA.
Á fyrstu 65 dögum þessa árs bárust Útlendingastofnun 49 hælisumsóknir en til samanburðar má nefna að 115 umsóknir bárust allt síðasta ár. Það var jafnframt mesti fjöldi umsókna frá árinu 2002. Þetta kemur fram í minnisblaði sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti fyrir ríkisstjórn í morgun. Þar kemur líka fram að fjölskyldufólki hefur fjölgað í hópi umsækjenda.

Málsmeðferðartími í hælismálum er mjög langur og í árslok áttu 140 einstaklingar umsókn um hæli til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum en þar á meðal eru mál einstaklinga sem óskuðu hælis á árunum 2010 og 2011.

Reykjanesbær fer með þjónustu við hælisleitendur samkvæmt samningi við Útlendingastofnun frá árinu 2004. Bærinn hefur lýst því yfir að ekki sé unnt að taka á móti fleiri hælisleitendum en sem sakir standa sinnir Reykjanesbær þjónustu við um 150 hælisleitendur.

Innanríkisráðherra hefur lagt til að bregðast við þessu með eftirfarandi hætti:

Gripið verði þegar í stað til ráðstafana til að stytta málsmeðferðartíma, jafnt hjá Útlendingastofnun og innanríkisráðuneytinu. Í því skyni verði starfsfólki fjölgað tímabundið og sett verði reglugerð um flýtimeðferð hælisumsókna. Í samvinnu við Reykjanesbæ verði óskað eftir liðsinni Rauða kross Íslands um aðkomu að búsetumálum til skamms tíma. Komist verði að samkomulagi um framtíðarskipan búsetuúrræða hælisleitenda hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×