Innlent

Fagnar umræðunni um breytta stefnu í fíkniefnamálum

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Gunnar Smári Egilsson formaður SÁÁ.
Gunnar Smári Egilsson formaður SÁÁ.
Gunnar Smári Egilsson, formaður SÁÁ, fagnar umræðu um afglæpavæðingu fíkniefnaneyslu. Nokkrir þingmenn úr stjórnarflokkunum og Hreyfingunni lögðu í gær fram þingsályktunartillögu um breytta stefnu í fíkniefnamálum.

Meðal annars er gert ráð fyrir eflingu forvarna og afnám refsingar fyrir vörslu á neytendaskömmtum ásamt því að efla til muna meðferðarúrræði fíkla og auðvelda þeim sem vilja fíkniefnalaust líf að aðlagast samfélaginu á nyjan leik. Með þessu er horft til svokallaðrar portúgölsku leiðar.

Tillagan gerir ráð fyrir að sex manna hópur sérfræðinga verði skipaður til að vinna að þessum markmiðum. Stjórn SÁÁ mun koma að þessari vinnu. Gunnar Smári Egilsson, formaður SÁÁ, fagnar tillögunni en ítrekar að aukið aðgengi að vímuefni sé eitt og sér engin lausn.

„Það sem við horfum til er fyrst og fremst afglæpavæðing sjúkdómsins. Að taka þennan sjúkdóm og sinna honum á eðlilegan hátt inn í kerfinu. Þegar það er í höfn, þá getum við farið að horfa á aðgengi þessa sjúklinga að efnunum."

„Hættan við þessa umræðu er sú spurning hvort að ríki eigi að fara að selja hass. Það er hins vegar ekki aðalmálið í þessu öllu, heldur aðgengi þeirra sem hafa veikst og sýkst af neyslunni af eðlilegri þjónustu. Það er aukaatriði hvernig aðgengið nákvæmlega er," segir Gunnar Smári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×