Innlent

Lýsa verulegum áhyggjum af símahlustun

Lögmannafélag Íslands lýsir verulegum áhyggjum af því hvernig staðið er að símahlustun í tengslum við rannsókn sakamála. Stjórn félagsins hefur skrifað Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra bréf í tilefni af svari hans við fyrirspurn á Alþingi á dögunum, varðandi símahlustun og þeim umræðum sem spruttu upp í kjölfar þess.

Félagið segir að það valdi ekki síst áhyggjum að samtöl sakborninga og verjanda, og einnig samtöl sakborninga og grunaðra manna við aðra lögmenn en verjendur, virðast tekin upp og á þau hlustað af rannsóknaraðilum, án þess að lögmaðurinn sé grunaður um afbrot. „Í bréfi stjórnar félagsins er bent á að brýnt sé að eftirlit verði aukið með framkvæmd símhlustunar og vernd trúnaðarupplýsinga sem fram koma í samskiptum sakborninga og verjenda og eftir atvikum annarra lögmanna, treyst," segir fréttabréfi félagsins.

Það var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem spurði Ögmund út í málið. Í svari hans kom fram að á árunum 2008 til 2012 hafi íslenskir dómstólar fengið alls 875 beiðnir um símhleranir frá saksóknara- og lögreglustjóraembættum landsins. Af þessum beiðnum hafi sex þeirra verið hafnað og tvær til viðbótar voru teknar til greina að hluta til. Alls voru því veittar 867 heimildir til símhlerunar á þessum fjórum árum, eða um 99,1% af beiðnum sem bárust.

„Einnig er í bréfi félagsins bent á að óhjákvæmilega vakni sú spurning hvaða skilning ríkissaksóknari, sem eftirlitsaðili með símahlustun, leggi í inntak 85. gr. sakamálalaga nr. 88/2008. Telur stjórn félagsins að því tilefni rétt að árétta að trúnaðarskyldunni er ætlað að vernda hvers kyns upplýsingar sem fram koma í samskiptum lögmanna við þá sem til þeirra leita, en ekki einvörðungu samskipti sakborninga og lögmanna sem skipaðir hafa verið verjendur þeirra, eins og lesa megi út úr svörum ríkissaksóknara.

Þá er í bréfinu óskað viðbótar upplýsinga m.a. um framkvæmd símhlerana þegar verjendur eiga hlut að máli. Loks er í bréfi stjórnar félagsins til innanríkisráðherra óskað eftir fundi með fulltrúum ráðuneytisins og embættis ríkissaksóknara til að ræða þessi mál."

Jónas Þór Guðmundsson, formaður Lögmannafélags Íslands, segir í samtali við fréttastofu að ekkert svar hafi borist frá innanríkisráðherra. En tekur þó fram að bréfið hafi verið sent fyrir nokkrum dögum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×