Innlent

Ríkið dæmt til þess að greiða bætur vegna mislukkaðs dvergakasts

Héraðsdómur Austurlands.
Héraðsdómur Austurlands.
Héraðsdómur Austurlands dæmdi íslenska ríkið til þess að greiða konu rúmar fjórar milljónir króna í miskabætur vegna mislukkaðs dvergakasts sem átti sér stað á íþróttahátíð framhaldsskóla á Austurlandi. Hátíðin var kölluð Austfirsku ólympíuleikarnir og fóru fram á Neskaupsstað árið 2008. Konan var að læra hárgreiðslu í Verkmenntaskólanum á Austurlandi en hún hóf þar nám árið 2007.

Konan segir málavexti þá að einn kennaranna hafi lagt að henni að taka þátt í dvergakastinu sem dvergur fyrir hönd skólans. Kennarinn hafi sagt við hana að hún væri minnst og léttust og ætti því að vera dvergur í dvergakastinu. Konan kveðst þannig hafa fengið bein fyrirmæli um að taka þátt en ekki hafi verið kannað hvort hún vildi taka þátt í þessu. Henni var meðal annars sagt að hún yrði að taka þátt í einhverri íþrótt.

Dvergakastinu er lýst svo fyrir héraðsdómi að tveir menn hafi tekið undir lappir „dvergsins" og kastað honum yfir slá sem í þessu tilfelli var 1.8 metrar á hæð. Í þessu tilviki fór ekki betur en svo að mönnunum fipaðist eitthvað til þannig konan lenti harkalega á gólfinu fyrir framan stöngina. Hún kveðst muna höggið en síðan hafa misst úr í stutta stund. Hún muni næst eftir sér þar sem hún lá á gólfinu og var að reyna rísa upp. Síðan hafi hún rankað við sér þar sem hún sat á bekk í íþróttahúsinu og allur salurinn horfði á hana.

Myndband náðist af atvikinu og er því lýst svona í dóminum: „Á framlögðu myndskeiði af atburðinum kemur fram að tveir piltar taka undir fætur stefnanda, lyfta henni upp og ætla að kasta henni yfir þverslá. Þeir ná hins vegar ekki að kasta henni yfir slána heldur fellur hún niður á stöngina og niður á gólfið en lendir með höfuðið á dýnunni sem átti að kasta henni á."

Í niðurstöðu dómara segir svo að telja verði augljóst að slíkt atriði væri áhættusamt og þurfi mikillar samhæfingar við. Ekki liggur fyrir að um hefðbundna íþróttagrein sé að ræða sem nemendur höfðu fengið þjálfun í. Svo segir orðrétt: „Telja verður að skólastjórnendur hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að leyfa slíkt atriði á leikunum. Einkum er það ámælisvert þegar litið er til þess að atriðið var framkvæmt án alls undirbúnings, leiðbeininga eða þjálfunar af hálfu skólans, eins og fram kemur í framburðum þeirra sem skýrslu gáfu fyrir dómi."

Þar af leiðandi er skólanum gert að greiða konunni miskabætur en hún hlaut einnig varanlega örorku vegna óhappsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×