Innlent

Jónína Rós: Ekkert internet í sumum byggðum landsins

Íslandspóstur. Myndin er úr safni.
Íslandspóstur. Myndin er úr safni.
Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði mjög mikilvægt að fyrirhuguð gjaldskrárhækkun Íslandspósts kæmi ekki í veg fyrir það að héraðsfréttablöðin kæmu áfram út, en miklar áhyggjur eru vegna hækkunarinnar og vilja sumir útgefendur meina að hækkunin muni kippa rekstrargrundvellinum undan slíkri prentútgáfu.

„Ég vil koma með nýjan vinkil á þessa umræðu," sagði Jónína Rós og bætti við að sumir hefðu bent á að það væri óþarfi að bera blöð á milli húsa á tímum internetsins þar sem auðvelt er að nálgast allar fréttir á vefnum.

„Þannig er það þó að víða er netsambandið lélegt eða alls ekki," sagði hún og benti á að í dreifðum byggðum, þar sem héraðsfréttablöðin skiptu miklu máli, væri ekki netsamband eða það væri mjög lélegt. Jónína Rós tók raunar engin dæmi um byggðir þar sem netsamband væri verra en annarsstaðar.

„Mig langaði bara til þess að minna á það hér," sagði hún þegar hún benti á að rökin um að það væri hægt að nálgast fréttir á internetinu ættu ekki alltaf við í þessari umræðu.

Jón Bjarnason, sem er utan flokka, hvatti innanríkisráðherra til þess að fresta eða aflýsa þessum hækkunum sem boðaðar eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×