Innlent

"Brúin er alveg örugg"

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
"Það er bara leiðinlegt að keyra yfir brúna. Hún er öll í bylgjum og menn þurfa að hægja vel á sér. Þannig hefur það verið lengi," segir G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar um einbreiðu brúna yfir Hornafjarðarfljót.

Gunnar Stígur Reynisson tók myndband á dögunum þar sem hann ekur yfir brúna og vekja stór op á vegriði brúarinnar athygli. Á einum stað eru vegriðin bundin saman með reipi. Vekur myndbandið upp þá spurningu hvort ekki sé kominn tími á brúna.

"Ný brú er á samgönguáætlun. Byrjað verður á henni á öðru tímabili 2015-2018 og verkinu lýkur svo á þriðja tímabilinu 2019-2022. Þetta er heilmikil vegagerð. Vegurinn færist allur til og styttist," segir G. Pétur. Í Samgönguáætlun 2011-2022 er fjallað um hvernig hringvegurinn verði færður við Hornafjörð. Mun hringvegurinn styttast um 11 kílómetra við breytinguna.

Nýja brúin yfir HornafjarðarfljótSamgönguáætlun 2011-2022
"Nýja brúin hefur verið á áætlun töluvert lengi og verið í undirbúningi mjög lengi. Þetta er framkvæmd upp á 4,9 milljarða í samgönguáætlun. Þetta er mikil framkvæmd. Þessar stóru einbreiðu brýr eru mikil verk," segir G. Pétur. Aðspurður um hversu örugg brúin sé svarar G. Pétur:

"Brúin er alveg örugg." Varðandi vegriðin minnir G. Pétur á að brúin sé ekki hugsuð fyrir gangandi vegfarendur enda sé engin göngubraut á brúnni sem er einbreið.

"Það er auðvitað leiðinlegt ef brúin lítur illa út. Vegriðin þurfa auðvitað að vera örugg og það er fylgst með því," segir G. Pétur.

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar er væntanlegur á svæðið í apríl til þess að setja nýtt vegrið á brúna. Talið er að rekja megi skemmdirnar, sem sjást glögglega á myndbandinu hér að neðan, til stærri tækja sem krækja í stálið á leið sinni yfir brúna.

Myndbandið





Fleiri fréttir

Sjá meira


×