Innlent

Gunnlaugur neitaði sök - sakaður um meiriháttar skattalagabrot

Gunnlaugur Briem neitaði sök í fyrirtöku sakamáls gegn honum í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en Gunnlaugur hefur verið ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á 60 milljón króna skatti vegna afleiðuviðskipta við Landsbankann og Glitni á árunum 2006 til 2008.

Gunnlaugur er fyrrverandi starfsmaður Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna en það er embætti sérstaks saksóknara sem ákærir Gunnlaug fyrir meiriháttar skattalagabrot.

Alls gerði Gunnlaugur 584 gjaldmiðlasamninga og þénaði þannig rétt tæplega 600 milljónir króna. Mest þénaði hann árið 2006 en þá þénaði hann rúmlega 250 milljónir á þessum viðskiptum.

Gunnlaugur mætti ekki í þingfestingu málsins í byrjun febrúar og var málinu því seinkað um mánuð. Samkvæmt upplýsingum frá ákæruvaldinu þá var veittur frestur til að skila greinargerð. Því er óljóst hvenær aðalmeðferð málsins fer fram.

Lífeyrissjóður Verzlunarmanna sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í febrúar.

Þar kom fram að forsvarsmenn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna fullyrtu að sjóðurinn, stjórnendur hans eða aðrir starfsmenn, ættu enga aðild að máli þar sem fyrrverandi starfsmaður sjóðsins hefur verið ákærður fyrir stórfellt skattalagabrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×