Innlent

RÚV-frumvarp samþykkt - staða á auglýsingamarkaði skert

Alþingi samþykkti fyrir stundu stjórnarfrumvarp um Ríkisútvarpið með yfirgnæfandi meirihluta, eða 35 atkvæðum gegn 4. Átta sátu hjá.

Allnokkrar breytingar verða á högum RÚV með nýsamþykktu frumvarpi en sú áhrifamesta er líklega takmarkanir á auglýsingum fjölmiðilsins.

Samkvæmt frumvarpinu eru auglýsingar í dagskrárliðum RÚV takmarkaðar. Þá er einnig lagt bann við að RÚV afli sér tekna með kostun dagskrárliða nema í ákveðnum undantekningartilvikum.

Tvær breytingartillögur voru felldar. Það var annars vegar tillaga Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, sem vildi tryggja öllum pólitískum framboðum aðgang að RÚV til þess að koma sýnum stefnumálum á framfæri.

Þá var tillaga Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur einnig felld en þau vildu að 20 prósent af tekjum RÚV færu í kaup á innlendu dagskrárefni. Björgvin G. Sigurðsson, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, sagði þá tillögu hugsanlega fela í sér að 20-30 störf töpuðust innan RÚV.

Aðrar breytingar sem frumvarpið felur í sér er aukið aðgengi sjón- og heyrnarskertra að fjölmiðlaþjónustunni. Þá er gert ráð fyrir sérstökum aðgerðum til að gera heyrnarlausum fært að fylgjast með tilkynningum um og lýsingum á atburðum sem hugsanlega ógna öryggi almennings, t.d. náttúruhamförum.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að hún óttaðist að vegna örrar tækniþróunar yrði frumvarpið fljótt úrelt. Undir þetta tók Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×