Innlent

Endurheimtu stolinn flatskjá og heimabíó á netinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eigendur félagsbústaðar í Húsafelli dóu ekki ráðalausir þegar flatskjá og heimabíói var stolið úr bústaðnum í liðinni viku. Vesturlandsvefurinn Skessuhorn greinir frá þessu.

Tækin voru nýleg og um töluverð verðmæti að ræða. Við eftirgrennslan komust menn að því að samskonar tæki væru auglýst til sölu á vefsíðunni bland.is. Búið var að slá töluvert af raunvirði tækjanna og því um kjarakaup að ræða fyrir lesendur vefsins.

Þegar komið hafði verið á sambandi við seljanda á síðunni var lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu beðin um að taka hús á seljandanum. Samkvæmt heimildum Vísis var um hús í Hafnarfirði að ræða. Hafði lögreglan meðferðis framleiðslunúmer tækjanna sem stolið hafði verið. Um sömu tæki var að ræða og gat lögreglan því auðveldlega komið tækjunum aftur til síns heima.

Söluaðili kvaðst ekki hafa stolið tækjunum heldur væri hann aðeins milligöngumaður. Gaf hann upp nafnið á meintum ræningja. Málið er enn til rannsóknar hjá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×