Innlent

Katrín Jakobs: Almenningur hefur ekki áhuga á bulli

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir að umræðukúltúrinn í íslenskum stjórnmálum sé ekki góður. Hún segist ekki telja að almenningur hafi mikinn áhuga á lélegri umræðuhefð í þinginu. Þannig sé ekki eftirspurn eftir „bulli."

Katrín fór yfir þessi mál í nýjasta þættinum af Klinkinu. (Á 17:27 hefst umræða um bætt vinnubrögð í stjórnmálunum).

Mikil gagnrýni kom á störf þingsins í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem kom út 12. apríl 2010 og þar fjallað um bætt vinnubrögð í stjórnmálunum.

Hefur eitthvað breyst eftir 12. apríl 2010? „Þetta er mjög góð spurning. Stundum hefur mér fundist umræðukúltúrinn í stjórnmálunum, a.m.k sá kúltúr sem er sýnilegastur, ekki nógu góður, því miður. Við erum ekki nógu gjörn á að halda okkur við það málefni sem við erum að ræða. Auðvitað á það ekki við um alla," segir Katrín.

Geturðu nefnt dæmi um mál þar sem þið eruð í sandkassaleik? „Ég get auðvitað nefnt dæmi um alls konar orð sem eru látin falla. Fólk notar allt of stór orð, finnst mér, af litlu tilefni."

Eins og ganga með spjöld í þinginu sem á stendur „Málþóf"? „Það er einn gjörningurinn. Þá er líka talað um lygar."

(Þeir sem tóku þátt í þeim gjörningi voru Björn Valur Gíslason, núverandi varaformaður VG og Lúðvík Geirsson, þingmaður Samfylkingarinnar)

Það er líka talað um að menn séu ölvaðir?

„Já, það er talað um að menn séu ölvaðir. Það er talað um valdarán og annað slíkt. Það eru notuð mjög stór orð á Alþingi."

Sjá ekki kjósendur í gegnum þetta rugl? „Ég auðvitað treysti bara á það að almenningur sé gagnrýninn og velti því fyrir sér hvort það sé innistæða fyrir stóru orðunum þegar þau eru sögð."

En hefur almenningur nægan áhuga á stjórnmálum? Ef að fjölmiðlaneysla ræðst af eftirspurn og almenningur hefur gaman að því að horfa á bull, hvað eiga fjölmiðlar að gera? „Ég hef ekki orðið vör við það að almenningur sé mjög hrifinn af þessari umræðuhefð, satt að segja."

En það er okkur fjölmiðlunum að kenna að miðla bulli? „Vantraust fólk á stjórmálunum er að einhverju leyti sú ímynd sem það fær. Vissulega eiga fjölmiðlar sinn þátt í því þeir birta oft meira af bullinu en hinu. Sem er vont. Því það er mjög margt jákvætt sem gerist á Alþingi. Bæði í inni í nefndum og í þinginu. Það eru oft fínar og málefnalegar umræður í ræðustól Alþingis. Sem dæmi, þegar ég var þingmaður í stjórnarandstöðu og mér fannst eitthvað stórmerkilegt hafa gerst yfir daginn, svo horfði ég ótrúlega spennt á fréttirnar til að sjá hvað yrði í fréttum. Og það var aldrei nokkurn tímann það sem ég taldi merkilegast."

Katrín segir að ræðutími hafi lengst um helming á þessu kjörtímabili. Hún spyr hvaða tilgangi það þjóni. Aðeins einu sinni í sögunni hefur 71. gr. þingskapa verið beitt og ræðutími í 2. umræðu styttur, en það var í umræðu um aðild að NATO. „Það var ekki fyrirmyndarumræða," segir Katrín, sem segir að beita verði þessari heimild af mikilli varkárni.

Viðtalið við Katrínu í heild sinni í Klinkinu má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×