Innlent

Segir skilning Björns Vals vitlausan - mátti hugsanlega orða hlutina skýrar

Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson
„Ég hafði nú ekki hugmyndaflug í að þetta yrði túlkað með þessum hætti," segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um ásakanir Björns Vals Gíslasonar, þingmanns Vinstri grænna, sem sakaði Guðlaug um haugalygi þegar Guðlaugur lýsti fundi sínum með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Guðlaugur hélt ræðu í gær um efni fundarins þar sem hann sagði gesti nefndarinnar, sem voru fulltrúar frá ASÍ, ríkisskattstjóra, SA og fjármálaráðuneytisins, hefðu meðal annars rætt um að það að skattar væru orðnir svo háir að það væri orðið réttlætanlegt að borga þá ekki. Setningin í ræðu Guðlaugs Þórs sem um er deilt er nákvæmlega þessi:

„Við fórum yfir skattamál og þar voru allir helstu sérfræðingar landsins í skattamálum sem upplýstu okkur um að skattsvik og skattundanskot hafi stóraukist, upplýstu okkur um að tilfinning þeirra væri sú að skattar væru orðnir það háir að réttlætanlegt væri orðið að borga þá ekki."

Aðspurður segir Guðlaugur að það hafi vissulega vantað orðið „fólk" eða „almenningur" þarna einhverstaðar, hugsanlega hefði mátt orða setninguna skýrar, en Guðlaugur segir það á hreinu að það hafi ekki verið afstaða gesta nefndarinnar að það væri réttlætanlegt að greiða ekki skatta hér á landi.

Þessu til stuðnings bendir Guðlaugur á svar ríkisskattstjóra til Björns Vals í gær en þar segir meðal annars:

„Í okkar máli kom fram að skatthlutföll hefðu hækkað og því væri freisting til undanskota meiri en áður og slíkt væri að jafnaði skýring gjaldenda þegar komist hefði upp um undanskot. Við vorum að sjálfsögðu ekki að réttlæta það heldur greindum frá þeim sjónarmiðum sem heyrðust frá gjaldendum og víðar í samfélaginu hvað þetta varðar. Ríkisskattstjóri tekur að sjálfsögðu ekki undir afstöðu gjaldenda hvað þetta varðar."

Guðlaugur undirstrikar svo að næsta ræða á eftir honum, sem Sigfús Karlsson varaþingmaður Framsóknarflokksins hélt, hafi sá skilningur komið fram að það væru ekki nefndarmenn sem héldu þessu fram, heldur væri þetta afstaða allt of margra í samfélaginu sem kysu að svindla undan skatti.

Orðrétt sagði Sigfús um þetta: „og ég held að þeir sérfræðingar sem voru á nefndarfundi hjá okkur áðan hafi rétt fyrir sér um það — að menn telja að skattar séu orðnir það háir í landinu að fólki finnist það réttlætanlegt að stinga undan skatti. Þetta er bara hræðileg staðreynd."

Einnig kom fram í svari ríkisskattstjóra að beinn tekjuauki ríkissjóðs vegna skatteftirlits á árunum 2011 og 2012, voru 13,4 milljarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×