Innlent

Sumarbústaðir seljast vel

Sala á sumarbústöðum er góð og hefur haldið dampi þrátt fyrir breyttar efnahagsaðstæður. Þetta segir formaður Félags fasteignasala, Ingibjörg Þórðardóttir.

„Ég verð auðvitað vör við aukna eftirspurn og ég veit til þess að bústaðir hafa verið að seljast vel. Enda hefur í raun og veru ekki verið nein verðlækkun á bústöðum í gegnum þetta erfiðleikatímabil.“

Ingibjörg segir meira um að fólk staðgreiði bústaði en áður, og borgi jafnvel upp eignir á fjórum til sex mánuðum.

„Þetta á í raun við um flestar eignir í dag. Þetta er bara orðið breytt umhverfi. Flestar eignir eru fullgreiddar einum til tveimur mánuðum eftir afhendingu.“

Ingibjörg segir sum svæði vinsælli en önnur og komi góðir bústaðir á eftirsóknarverðum stöðum þá seljist þeir strax.

„Fólk vill eiga frístundahús. Bæði hefur verið mikið byggt og ásókn í sumarbústaði hefur aukist. En það hefur ekki verið nein veruleg breyting þannig lagað, þetta er búið að vera nokkuð jafnt og þétt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×