Innlent

Reyndu að smygla 20 kílóum af amfetamíni til landsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fíkniefnahundur að störfum.
Fíkniefnahundur að störfum. Mynd/ Anton.
Þrír karlar voru í dag í héraðsdómi úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 28. mars í tengslum við rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á umfangsmiklu fíkniefnamáli, og er það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Mennirnir hafa kært úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar.

Þrír aðrir karlar eru einnig í haldi lögreglu vegna málsins, en þeir voru í síðustu viku úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 4. apríl á grundvelli almannahagsmuna. Fíkniefnamálið snýst um 20 kíló af amfetamíni og 1,7 lítra af amfetamínbasa, en ætla má að með amfetamínbasanum hefði verið hægt að framleiða 17 kíló af amfetamíni.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni voru fjórir mannanna handteknir í janúar og tveir í febrúar. Fimm þeirra eru á fertugs- og fimmtugsaldri, en sá sjötti er um fimmtugt. Fíkniefnin voru send í nokkrum póstsendingum til landsins. Það voru starfsmenn tollyfirvalda, með aðstoð fíkniefnaleitarhunda, sem fundu efnin í janúar, en málið hefur verið unnið í góðri samvinnu við tollyfirvöld, sem og dönsk lögregluyfirvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×