Innlent

23 ára hreyfir sig jafn mikið og áttræður

Íslensk ungmenni hreyfa sig helmingi minna nú en fyrir átta árum samkvæmt frumniðurstöðum rannsóknar sem gerð var á lífsstíl barna og unglinga. Við samanburð rannsókna á íslenskum eldri borgurum kemur í ljós að 23 ára einstaklingur hreyfir sig nærri jafn mikið og áttræður einstaklingur.

Teymi hjá íþrótta og heilsufræðideild Háskóla Íslands rannsakaði heilsutengda þætti eins og holdafar, hreyfingu, þrek og fleira hjá íslenskum ungmennum. Árið 2003-2004 var lífstíll 9 og 15 ára Íslendinga skoðaður. Sama hóp var svo fylgt eftir átta árum síðar þegar ungmennin voru 17 og 23 ára. Settir voru hreyfimælar á hvern og einn í viku og var hreyfing og kyrrstaða þeirra skoðuð yfir daginn. Erlingur Jóhannsson sem stýrir rannsókninni segir frumniðurstöður sláandi.

„Það sem við sjáum núna að átta árum liðnum er að yngri hópurinn og eldri hópurinn reyndar líka er að hreyfa sig um 50 prósent minna en þeir gerður árið 2003-2004."

Þessi þróun sé í samræmi við erlendar rannsóknir. Kyrrseta ungmenna hafi aukist og sé tæpir þrír tímar á dag.

„Hún virðist vera, kyrrsetan næstum því sú sama alveg óháð því hversu mikið börnin eru í íþróttum eða að hreyfa sig. Það er að segja sá einstaklingur sem er mikið í íþróttum, hreyfir sig mikið hann er með jafnmikla kyrrsetu og sá sem hreyfir sig ekki neitt."

Kyrrsetan mældist mest á heimilum þeirra og ástæðan sé aukin tölvunotkun.

„Þetta er mjög grafalvarlegt mál að ungmenni hreyfi sig allt að átta til níu prósent minna á hverju einasta ári."

Erlingur segir grunnskólana standa sig vel í íþróttakennslu en þrátt fyrir það minnkar hreyfing grunnskólabarna. Foreldrar beri þar mesta ábyrgð.

„Foreldrar eru ekki nógu meðvitaðir um heilsuuppeldi barnanna sinna, hreyfa börnin ekki nógu mikið í daglegu amstri fjölskyldunnar. Svo held ég líka að skólakerfið eigi líka ansi mikið sök á máli, þeir hafa margir skólameistarar í framhaldsskólunum úthýst íþróttakennslunni til einkaaðila út í bæ sem er ekki gott. Skólameistarar framhaldsskólanna eiga hér stóran hlut að máli."

Þegar hreyfing 23 ára hópsins var borin saman við hreyfingu áttræðra úr annarri rannsókn var niðurstaðan sláandi.

„23 ára einstaklingar eru ekki langt frá því að hreyfa sig jafn lítið eða jafn mikið eins og áttatíu ára gamlir einstaklingar. Þetta segir okkur það að ástandið er ekki gott hjá 23 ára einstaklingunum og en ástandið aftur á móti er mjög gott hjá okkur eldra fólkinu."

„Foreldrar og börnin sjálf þurfa að öðlast meiri þekkingu á heilsuuppeldi og hvað í rauninni liggur þar á bakvið, allt sem tengist næringu, hvað þau borða hvernig þau hreyfa sig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×