Innlent

Tíu evrur fyrir að skoða Bláa Lónið

Forsvarsmenn Bláa Lónsins segja að ferðamönnum sem sæki Lónið heim hafi fjölgað mikið það sem af er árinu. Stefnir í að árið 2013 verði metár en 585 þúsund gestir lögðu leið sína í Lónið á síðasta ári.

Í tilkynningu frá Bláa Lóninu segir að í því skyni að vernda upplifun og auka þjónustu við gesti verði boðið upp á aukna þjónustu og sveigjanleika með vefbókunum og lengri opnunartíma í sumar.

Bláa Lónið verður opið frá 9-24 frá 1. júlí til og með 15. ágúst. Um helmingur gesta síðasta árs, 275 þúsund manns, sótti Lónið heim yfir sumarmánuðina þrjá. Þá verður hægt að bóka heimsóknina á vef Bláa Lónsins með góðum fyrirvara.

Fyrirhugað er að þeir einstaklingar sem heimsæki staðinn án þess að fara ofan í Bláa Lónið greiði 10 evrur í skoðunargjald eða sem nemur rúmum 1600 krónum. Í tilkynningunni segir að gjaldtakan sé í undirbúningi en 10 prósent gjaldsins muni renna til uppbyggingar ferðaþjónustunnar á Reykanesi, t.d. gangstígagerðar og merkinga.

Aðgangseyrir í Bláa Lónið er 5.400 krónur yfir vetrartímann og 6.600 krónur yfir sumartímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×