Innlent

Stúlkan heppin að brugðist var rétt við

Boði Logason skrifar
Magnús Gottfreðsson, er smitsjúkdómalækni á Landspítala Íslands.
Magnús Gottfreðsson, er smitsjúkdómalækni á Landspítala Íslands.
Magnús Gottfreðsson, smitsjúkdómalæknir á Landspítala Íslands, segir að á síðustu árum hafi komið ný og öflugri lyf í baráttunni gegn HIV-veirunni sem geri fólki kleift að lifa eðlilegu lífi. Lyfjameðferðir gangi töluvert betur nú en fyrir um það bil tíu til fimmtán árum.

Tveggja ára gömul stúlka í Bandaríkjunum varð fyrsta barnið í heiminum til að læknast af HIV-veirunni á dögunum. Stúlkan smitaðist af sjúkdómnum í móðurkviði en móðir hennar greindist með veiruna stuttu fyrir fæðinguna. Strax eftir fæðingu var hafin meðferð sem skilaði það góðum árangri að veiran fór úr stúlkunni.

Magnús segist hafa séð fréttina en hann hafi ekki lesið greininguna í smáatriðum. „Við vitum það að ef til dæmis heilbrigðisstarfsfólk verður fyrir stunguslysi með sýktu blóði, er hægt að draga mjög úr líkum á smiti með því að gefa því lyfjameðferð," segir hann.

„Þannig að út frá þeirri þekkingu, er hægt að álykta sem svo að það sé fræðilegur möguleiki á að lækna einhvern sem er nýsmitaður, með því að setja hann nógu snemma á meðferð - áður en veiran hefur tekið sér endanlega bólfestu í líkamanum. Það er kannski ekki svo mikill tími til stefnu, en þarna hefur stúlkan verið mjög heppin að það var brugðist við um leið."

Annað tilfellið í heiminum

Þetta er annað tilfellið í heiminum sem tekist hefur að lækna HIV-veiruna. Hitt tilfellið kom upp í Þýskalandi fyrir nokkrum árum, en þá hvarf veiran úr Þjóðverja. „Hann fór í beinmergsígræðslu og var meðferðin fólgin í því að drepa allan merginn og græða í hann nýjan merg, það var gert út af öðru vandamáli. Það virðist allt benda til þess að hann hafi læknast," segir Magnús.

Magnús segir að mikil þróun hafi verið í læknavísindum á síðustu árum. „Til dæmis hjá okkur er mikill meirihluti sjúklinga með ómælanlegt veirumagn í blóði. Framfarirnar hafa verið mjög miklar en hinsvegar greinast flestir það seint að veiran er búin að koma sér fyrir mjög víða. Jafnvel þó að þú meðhöndlir með mjög öflugum lyfjum nærðu ekki að uppræta sýkinguna. Í þessu tilviki, og hjá þeim sem verða fyrir stunguslysi, ertu með nákvæmlega þekktan atburð og veist hvernig þetta gerist - þá er stundum hægt að koma í veg fyrir smit eða hreinlega að lækna viðkomandi. Þá skiptir það kannski nokkrum klukkutímum hvernig brugðist er við."

Sömu lífsgæði fyrir HIV-smitaða og aðra

Á Íslandi hafa um 300 einstaklingar greinst með HIV-smit frá upphafi og á síðustu árum hafa rúmlega 20 manns greinst með veiruna á ári. Í dag eru um 180 í virkri meðferð á göngudeild Landspítalans.

„Þetta er ekki læknanlegur sjúkdómur, þetta hefur breyst í krónískan sjúkdóm sem hægt er að halda algjörlega í skefjum, rétt eins og þú meðhöndlar of háan blóðþrýsting eða eitthvað slíkt. Ef fólk kemst á meðferð og fær gott eftirlit fagfólks, er hægt að nánast tryggja því sömu lífsgæði og annara. Flestir sem eru hjá okkur eru úti á vinnumarkaðnum og lifa bara góðu lífi," segir að Magnús að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×