Innlent

"Þetta getur ekki versnað“

Vöruskortur gerði vart við sig í verslunum í úthverfum Reykjavíkur í dag. Þeir sem ætluðu að næla sér í eitthvað nýbakað í Nettó í Hverafold í Grafarvogi í dag urðu fyrir vonbrigðum.

Í búðinni hafði verið komið upp meðfylgandi tilkynningu þar sem fram kom að sökum ófærðar væri óvíst hvor pantaðar vörur myndu skila sér í dag. Ætti það sérstakleag við um mjólk, grænmeti og unnar kjötvörur.

Hallgrímur Ástráðsson, verslunarstjóri í Nettó í Hverfold, segir algjöran vöruskort hafa verið í búð sinni í dag.

„Það á eiginlega bara við um allar vörur. Nema lífrænt, segir Hallgrímur og hlær. „Við erum náttúrulega upp í Grafarvogi og hér var bara lokað."

Hallgrímur segist hafa áttað sig á því í gærkvöldi að veður yrði brjálað í dag.

„Þannig að ég lagði af stað í vinnuna klukkan hálf fimm í nótt. Það var fínt veður þá," segir Hallgrímur sem var mættur í vinnuna klukkan fimm. Allajafna mætir hann í vinnuna klukkan átta en búðin opnar klukkan tíu.

Hallgrímur segist hafa verið viss um að Reykjavíkurborg myndi ekki sinna mokstri í Grafarvogi sem skyldi. Hann vonast þó eftir betra ástandi á morgun. „Algjörlega. Þetta getur að minnsta kosti ekki versnað," segir Hallgrímur og hlær.

Í myndasyrpunni hér fyrir neðan má sjá ljósmyndir frá óveðrinu á höfuðborgarsvæðinu í dag sem teknar voru af ljósmyndurum Fréttablaðsins og Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×