Innlent

Hefði viljað fella ríkisstjórn á öðrum forsendum

„Ég hefði frekar viljað fella ríkisstjórnina vegna þess að hún hefur látið hjá liggja að jafna byrðar fjármálakreppunnar milli skuldsettra heimila og fjármagnseigenda," segir Lilja Mósesdóttir þingmaður utan flokka.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, lagði fram vantrauststillögu á hendur ríkisstjórninni í gær. Lilja segist þurfa að ræða við félaga sína á Alþingi áður en hún gerir upp hug sinn. Reiknað er með því að umræður um tillöguna fari fram á þingfundi sem hefst klukkan 10.30.

„Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig ég eigi að greiða atkvæði vegna þess að ég er ósátt við að fella ríkisstjórnina á þeim forsendum að hún hafi ekki komið í gegn frumvarpi um nýja stjórnarskrá sem bannar þjóðinni að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um málefni eins og Icesave," segir Lilja.

Eins og fram kemur að ofan hefði Lilja kosið að fella ríkisstjórnina á öðrum forsendum.

„Mér finnst að jafnframt eigi að fela starfsstjórninni það verkefni að taka á skuldavanda heimilanna," segir Lilja.

Atli Gíslason, einnig þingmaður utan flokka, sagði í samtali við fréttastofu að það kæmi ekki í ljós fyrr en við atkvæðagreiðslu hvort hann myndi greiða með eða á móti tillögunni.

„Ég ætla ekki að tjá mig fyrr," sagði Atli.

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, segist á bloggsíðu sinni ætla að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×