Innlent

„Auðvitað er þetta global warming“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Garðeigandi í Reykjavík tók þessa mynd í morgun af runna sem var byrjaður að laufgast.
Garðeigandi í Reykjavík tók þessa mynd í morgun af runna sem var byrjaður að laufgast. Mynd/Steinunn Stefánsdóttir
Eitthvað er um að tré og runnar séu farin að bruma þrátt fyrir að enn sé febrúar, en veturinn á sunnanverðu landinu hefur verið afar mildur. Garðeigandi í Reykjavík tók þessa mynd í morgun þegar hann varð þess var að runni í garði hans var byrjaður að laufgast. Um er að ræða gljámispil, og bárust fréttastofu ábendingar um runna bæði í Reykjavík og á Austfjörðum sem eru óðum að færast í sumarbúning.

Þröstur Eysteinsson sviðsstjóri hjá Skógrækt ríkisins segir þetta ekki óalgengt, enda fari veðurfar á norðurhveli jarðar hlýnandi.

„Það eru tegundir hér á Íslandi sem fara mjög snemma af stað, en það eru helst tegundir frá mjög norðlægum slóðum og meginlandsloftslagi sem láta blekkjast í hlýindum að vetrarlagi og fara þá að vaxa."

Þó Þröstur hafi litlar áhyggjur segir hann þó alltaf ákveðna hættu á frosti í apríl og maí, sem geta valdið skemmdum á tegundum sem farnar eru af stað. „Sumar tegundir eru viðkvæmar fyrir þessu en aðrar þola sæmilega frost þó þær hafi látið plata sig að vetrarlagi," segir Þröstur, og bætir því við að flestar aðaltegundirnar hér á landi hafi aðlagast vel og talsvert meiri hlýindi þurfi til þess að þær brjóti brum og laufgist.

„En auðvitað er þetta „global warming". Þetta er það sem var spáð varðandi hnattrænar loftslagsbreytingar, að hér myndi hlýna verulega að vetrarlagi. Miðað við það sem ég hef fylgst með veðrinu þá er þessi febrúarmánuður á góðri leið með að slá hitamet. Og ef þetta heldur áfram í mars þá fara ýmsar tegundir að láta á sér kræla."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×