Innlent

Bæjarráð Kópavogs lýsir yfir áhyggjum vegna fjárhagsstöðu MK

Meirihluti í bæjarráði Kópavogs samþykkti í gær ályktun þar sem lýst var yfir áhyggjum af því að stjórn Menntaskólans í Kópavogi hefðu gert áætlun fyrir árið 2013 með 35 milljón króna halla. Í ályktuninni segir meðal annars að slíkt geti skapað mikinn rekstrarvanda í framtíðinni. Svo segir orðrétt: „Þá eru gerðar óraunhæfar kröfur um sértekjur skólans eins og fram hefur komið hjá stjórninni."

Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, lagði til að þessari ályktun yrði vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar en það var ekki samþykkt. Í staðinn lögðu Guðríður, Arnþór Sigurðsson og Hjálmar Hjálmarsson fram eftirfarandi bókun:

"Afkoma menntaskólans í Kópavogs er betri á horfðist. Skólinn fékk viðbótartekjur þar sem nemendur voru fleiri en gert var ráð fyrir, sem og vegna framlags með nemendum í átakinu Nám er vinnandi vegur. Vissulega hefur verið mikið aðhald í rekstri skólans undanfarin ár vegna núverandi efnahagsástands en eins og kemur fram í fundargerð skólanefndar MK telur skólanefndin stöðuna viðunandi miðað við aðstæður. Undirrituð bendir hins vegar á að framhaldsskólar landsins munu ekki geta hagrætt í rekstri sínum frekar en verið hefur, lengra verður ekki gengið í þeim efnum."

Þessu svaraði meirihluti nefndarinnar með eftirfarandi bókun: „Það má ljóst vera af þessu að fjárveitingar til framhaldsskóla eru engan veginn ásættanlegar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×