Innlent

Lögregla þarf rýmri heimildir til að fást við kynferðisbrot

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Frá fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.
Frá fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Mynd/ Anton Brink.
Flestir þeirra gesta sem mættu á fund allsherjar- og menntamálanefndar í morgun þar sem fjallað var um kynferðisbrot gegn börnum voru þeirrar skoðunnar að lögregla ætti að fá rýmri heimildir til þess að beita svokölluðum virkum tálbeitum á netinu, í því skyni að góma barnaníðinga. Á fundinn mættu fulltrúar frá innanríkisráðuneyti,

Ríkissaksóknara, Barnaverndarstofu, Stígamótum og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu auk Svölu Ísfeld Ólafsdóttur lögfræðingi og sérfræðingi í kynferðisbrotum gegn börnum.

Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra var tíðrætt á fundinum um netið og þau tækifæri sem barnaníðingum gefast þar til þess að komast í samband við börn og mynda við þau trúnaðarsamband. Hann sagði lögreglu mjög virka í netheimum og nefndi til sögunnar Facebook síðu lögreglunnar sem hefði um þrjátíu þúsund lesendur. Í gegnum hana fái lögreglan mörghundruð skilaboð í hverjum mánuði þar sem greint er frá meintum brotum af ýmsu tagi.

Stefán tók einnig fram að fjölmargt hefði verið gert til bóta í þessum málaflokki síðustu árin, sérstakri kynferðisbrotadeild hefði verið komið á laggirnar og gæsluvarðhaldi beitt í auknum mæli gegn meintum gerendum. Þá hafi lögreglumenn fengið sérstaka þjálfun í að fást við kynferðisbrotamál.

Þá hafi umræða um kynferðisbrot gegn börnum aukist og orðið almenn í samfélaginu en Stefán benti á að það hafi meðal annars haft það í för með sér að gerendur í slíkum málum hafi fundið sér annan vettvang. Sá vettvangur sé netið og það kalli á önnur viðbrögð en lögregla hafi yfir að ráða í dag.

Að mati Stefáns þarf því nauðsynlega að ræða hvort lögregla fái heimildir til þess að beita virkum tálbeitum, það er að segja, að hafa frumkvæðið að því að ná sambandi við kynferðisbrotamenn á Netinu í þeim tilgangi að taka þá úr umferð.

Flest þeirra sem komu fyrir fundinn voru sammála Stefáni í þessu en Sigríður Friðjónsdóttir Ríkissaksóknari benti þó á að með því væri verið að fara inn á "hættulegt svæði" þar sem verið væri að ginna menn til þess að fremja brot sem þeir ella hefðu ekki framið. Því þurfi að skoða það ítarlega hvort úrræði af þessum toga standist lög og mannréttindasáttmála sem Íslendingar hafi gengist undir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×