Innlent

Fékk viðurkenningu fyrir aðstoð við vistheimilabörn

JHH skrifar
Pétur tók á móti viðurkenningunni í gær.
Pétur tók á móti viðurkenningunni í gær.
Samtök vistheimilabarna veittu Pétri Péturssyni, prófessor í guðfræði við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, heiðursviðurkenningu í gær í þakklætisskyni fyrir mikla og óeigingjarna aðstoð og einstaka uppörvun sem hann veitti vistheimilabörnum við stofnun Breiðavíkursamtakanna á þeim erfiðu tímum sem vistheimilabörn gengu þá í gegnum.

Breiðavíkursamtökin voru stofnuð á fundi í Laugarneskirkju 29. apríl 2007 en nafni þeirra hefur síðan verið breytt í Samtök vistheimilabarna. Samtökin eru félag fólks sem vistað var á upptökuheimilum og öðrum sambærilegum stofnunum á árunum 1950-1980. Markmið þeirra er að vera málsvari og hagsmunasamtök þessa hóps og einnig að stunda fræðslustarf og vinna að forvörnum gegn ofbeldi af öllu tagi á börnum á fósturheimilum.

Pétur Pétursson var fundarstjóri stofnfundar Breiðarvíkursamtakanna og var auk þess valinn verndari þeirra ásamt sr. Bjarna Karlssyni.

Það voru þeir Sigurgeir Friðriksson, formaður Samtaka vistheimilabarna, Einar D. G. Gunnlaugsson, ritari samtakanna og Georg Viðar Björnsson sem afhentu Pétri viðurkenninguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×