Innlent

Mánaðarfangelsi fyrir að slá lækni

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Maður var dæmdur í eins mánaðar fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að veitast að lækni í desember 2011 í húsnæði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í Reykjanesbæ. Maðurinn veittist með ofbeldi að lækninum sem þar var við skyldustörf. Maðurinn sló lækninn með flötum lófa á hægri hinn með þeim afleiðingum að læknirinn hlaut mar yfir hægra kinnbein og tognun í hálsi.

Við þingfestingu málsins játaði ákærði þá háttsemi sem lýst er í ákærunni. Ákærði krafðist vægustu refsingar. Kvaðst hann hafa verið í andlegu ójafnvægi og undir áhrifum vímugjafa á þessum tíma og sæi eftir atvikinu. Játning ákærða er í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann því sakfelldur fyrir brot sín.

Ákærði var dæmdur í fangelsi í einn mánuð en rétt þótti að skilorðsbinda refsinguna og fellur hún niður að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð. Ákærði var einnig dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, 42.650 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×