Innlent

Fyrirlestrar.is/ "Þessi vefur er fyrir alla sem láta sig samfélagið varða"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Stefán Karl Stefánsson, stofnandi og formaður Regnbogabarna, segir vefinn svar við ákalli samfélagsins.
Stefán Karl Stefánsson, stofnandi og formaður Regnbogabarna, segir vefinn svar við ákalli samfélagsins.
Vefurinn fyrirlestrar.is byggir á starfi Regnbogabarna frá stofnun samtakanna árið 2002 og þar er að finna fræðslu um jafnólíka málaflokka og jafnrétti kynjanna, uppeldi, ofbeldi á heimilum, streitu og geðrækt svo eitthvað sé nefnt. Stefán Karl Stefánsson, stofnandi og formaður Regnbogabarna segir vefinn svörun við ákalli frá samfélaginu enda hafi fjárframlög til fræðslu- og forvarnamála verið skorin mikið niður undanfarin ár. „Þessi vefur er fyrir alla sem láta sig samfélagið varða,“ segir hann.

Þegar er að finna yfir 40 fyrirlestra á vefnum og njóta fyrirlestrar Margrétar Pálu Ólafsdóttur hjá Hjallastefnunni, til dæmis strax mikilla vinsælda. Fyrirlestrarnir eru lifandi og stefnt er að því að þeir verði orðnir 300 talsins árið 2016. Hægt er að horfa á þá hvar sem er og segir Stefán að þeir geti sem dæmi nýst vel í skólastarfi. Þegar er hafinn undirbúningur fyrir sams konar vef í Bandaríkjunum. „Við erum að leita að sjálfboðaliðum á Íslandi, þýðendum, sem eru til í að þýða fyrirlestrana okkar og setja texta á þá á hinum ýmsu tungumálum,“ segir Stefán. Einnig er stefnt að því að fá erlenda fyrirlesara. „Og hafa þetta samvinnu því fólk er fólk, hvar sem við erum í heiminum og við erum öll að glíma við sömu verkefnin,“ segir hann.

Stefán segir forvarnir ekki verkefni sem eigi sér upphaf og endi, heldur sé símenntun nauðsynleg. „Þarna er komið forvarna- og fræðsluverkefni sem verður til um aldur og ævi. Þetta er sett upp líka fyrir síma og ipad og öll þessi tæki og tól sem til eru, svo það er tilvalið að horfa á einn fyrirlestur til dæmis þegar maður er að bíða eftir strætó.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×