Innlent

Sextán kynferðisbrot til rannsóknar á Suðurnesjum

Mynd Getty
Alls eru nú 16 kynferðisbrotamál til meðferðar við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum samkvæmt tilkynningu frá embættinu. Þrettán þeirra eru enn til rannsóknar en þrjú eru til afgreiðslu hjá lögfræðideild embættisins.

Frá áramótum hafa 12 kynferðisbrot komið til rannsóknar sem er talsverður fjöldi mála á tæplega tveimur mánuðum.

Börn eru brotaþolar í 12 þessara mála. Í 6 tilvikum er um ný eða nýleg brot að ræða en í 6 tilvikum gömul brot sem ætla má að séu fyrnd í einhverjum tilvikum. Í 3 tilvikum af þessum gömlu brotum voru brotaþolar börn þegar brotin áttu sér stað en skýrðu ekki frá þeim fyrr en á fullorðinsaldri.

Þess má geta að í framangreindum málum var í tveimur tilvikum um tælingu/tilraun til tælingar í gegnum internetið að ræða.

Af þeim kynferðisbrotamálum sem komu til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum árið 2012 voru 8 nauðgunarmál og voru 5 þeirra afgreidd fyrir áramótin. Meðal rannsóknartími þeirra var 47,6 dagar og meðalmeðferðartími hjá lögfræðideild 7,4 dagar að því er fram kemur í tilkynningu. Tvö málanna voru afgreidd eftir áramótin þannig að eitt er enn til rannsóknar.

Í rannsóknardeild alvarlegra mála hjá embættinu starfa 5 rannsóknarlögreglumenn sem auk kynferðisbrotarannsókna sinna rannsóknum annarra ofbeldisbrota í umdæminu ásamt fjölda annarra alvarlegra brotaflokka.

Enginn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×