Innlent

Vonast til að þingstörfum ljúki á réttum tíma

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Framsóknarflokksins. Mynd/ GVA
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, vonast til þess að hægt sé að ljúka þingstörfum á tilsettum tíma. Samkvæmt áætlun á að slíta þingi á föstudag.

„Ég hef ekki heyrt annað en að til standi að halda sig við starfsáætlun Alþingis. Að vísu gerir maður ráð fyrir að það geti bæst við einn eða tveir dagar ef það þarf að klára mál sem hefur náðst samstaða um," segir Sigmundur Davíð.

Hann segist sjálfur telja að það eigi að vera hægt að halda áætlun. Það muni þó að vísu þýða að þeir tugir mála sem bíða afgreiðslu verði ekki öll kláruð. „En það var aldrei gert ráð fyrir því held ég, að þau kláruðust öll," segir Sigmundur Davíð. „Mér þætti mjög gott ef menn héldu áætlun þó ekki væri nema til þess að skapa ekki allsherjarfordæmi fyrir því að áætlun standist ekki," bætir hann við.

Sigmundur tekur þó fram að það geti hentað stjórnarandstöðunni ágætlega að þingið starfi sem lengst og sem næst kosningum. „Á móti kemur að það er mikilvægt að frambjóðendur komist í kjördæmi sín að hitta kjósendur og kynna sig," segir Sigmundur Davíð.

Vísir náði hvorki tali af Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, né Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, við vinnslu þessarar fréttar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×